Andvari - 01.01.1996, Blaðsíða 151
ANDVARI
OFBELDI TIMANS
149
Þrá þeirra er fyrst og fremst viðbragð við vöntun eða skorti sem brýtur oft
á tíðum skemmtilega í bága við „þekkingu“ samfélagsins á þörfum manns-
ins. íbúar borgarinnar eru gagnteknir af kynferði en á hátt sem ýkir kyn-
lífsáhuga okkar eigin menningar eins og Foucault lýsir honum. Þannig er
kynlífið fyrirferðarmesta neysluvara borgarinnar. Auglýsingaskilti sem
vekja athygli á hjálpartækjum ástarlífsins bera vitni um að samfélagið virð-
ist eiga svar við hvers kyns óreiðu í hvatalífinu; við eigum svar við öllu, seg-
ir ein persóna bókarinnar. Engu að síður einkennist tilfinningalíf borgar-
búa af stórkostlegri ófullnægju og má í því samhengi nefna skólastjóra Hins
ríkisrekna skóla úthafsþrárinnar, Sonju Lísu Hrís, sem rannsakar það sem
erlendar konur hafa fram yfir konur í Dyrunum þröngu og situr fyrir Þór-
unni á ólíklegustu stöðum. Sjálf yfirgefur Þórunn borgina líkamlega og
andlega ófullnægð eftir samband sitt við Ágúst, sem sagður er í háska
staddur „vegna útjaskaðrar ævintýraþarfar sem var vitlaust meðhöndluð í
æsku“ (44), og megnar hvorki að fullnægja sjálfum sér né henni. Undarlegt
samband þeirra, sem einkennist af misheppnuðum samförum og glötuðum
tækifærum (heimili Ágústs er einmitt við „Götu hinna glötuðu tækifæra“
sem Þórunn kallar í lok sögunnar götu lífs síns), bindur þessa kynlegu frá-
sögn saman. Hún hefst á kyndugum ástarleik þeirra á hótelinu Englar æsk-
unnar og henni lýkur er Þórunn brunar út úr borginni á mótorhjóli elsk-
hugans eftir að hafa gengið af honum „dauðum“.
Mörk á milli ástar og kynhvatar eru brotin niður í þessari sögu: mark-
aðsöflin höfða bæði til líkama og sálar í auglýsingum sínum. Ástin býr ekki
yfir göfgandi eðli heldur verður henni ekki lýst án skírskotunar til kynferð-
islegrar fýsnar eða líkamans. Táknmál hans ber uppi merkingu textans og
nær hámarki í glósubók Ágústs þar sem finna má „Landakort tilfinning-
anna“, sem minnir þrátt fyrir óbærilegan léttleika á hugsun fyrri tíma. Lík-
ami og kenndir eru þar eitt: í olnbogum býr metnaðurinn, í hárinu væntum-
þykjan, í hjartanu ástin; augabrýrnar tákna hin yndislegustu takmörk
hverrar manneskju (sjá 153-4). Á þennan hátt ögrar sagan rökviti okkar, þó
aldrei án þess að missa sjónar á veruleikanum; gildir þar einu hvort skír-
skotað er til móðurástar eða íslenskrar skattheimtu á milli þess sem sögu-
hetjan talar við fallegasta tré heimsins og á samræði við svín. Söguna ein-
kennir raunar þetta tvöfalda sjónarhorn sem kenna má annars vegar við
fantasíu en hins vegar við súrrealisma. Hún ógnar ekki heiminum með því
að leysa hann upp eins og fantasían gerir en með því að hafna rökvitinu
gerir hún uppreisn í anda súrrealismans gegn heimi sem er grundvallaður á
skynsemi og viljanum til að lifa af.
Skáldsaga Kristínar gerir sér leik að viðhorfi þeirra sem líta á sálarlíf
mannsins sem völundarhús eða skuggaveröld sem orð fá ekki lýst nema að
takmörkuðu leyti. Þráin er ekki felld í fjötra lýsingar og flokkunar, líkt og í