Andvari - 01.01.1996, Blaðsíða 84
82
SVEINN SKORRI HÖSKULDSSON
ANDVARI
skrifað Einari: „Gestur kominn inn með eymd og óvirðing. Komdu heldur
ekki en að þú komir með meiri eymd en þú fórst.“ Sumarið 1885 gekk Ein-
ar að eiga danska unnustu sína, Maren Mathilde Petersen. Þau voru vígð í
borgaralegt hjónaband í ráðhúsi Kaupmannahafnar. Það má vera til marks
um uppreisnarhug Einars gegn kirkju og trúarbrögðum á þessum dögum
að í athugasemdadálki hjónavígsluskrárinnar segir að þau velji borgaralegt
hjónaband vegna þess að brúðguminn viðurkenni engin þau trúarbrögð
sem þá séu játuð í ríki Danakonungs.
Skömmu eftir brúðkaupið stigu ungu hjónin á skipsfjöl. Fyrir stafni lá
Vesturheimur, land möguleikanna, tækifæranna og vonanna í hugarsýn evr-
ópskra fátæklinga á 19. öld. Fyrst eftir komuna til Ameríku dvöldust þau í
skjóli norska skáldsins og únítaraprestsins Kristofers Jansons í Minneapol-
is, en síðan héldu þau til Winnipeg í Manitoba sem þá mátti orðið heita
höfuðborg íslenska landnámsins í Kanada. Þau hjón hljóta að hafa lifað við
afskaplega kröpp kjör eftir að þau settust þar að. Einhverjar tekjur hafði
Einar af fyrirlestrahaldi og kennslu en að öðru leyti er lítið vitað um lífsaf-
komu hans fyrsta kastið vestra. Um það bil einu ári eftir komuna til Winni-
peg stofnaði hann svo blaðið Heimskringlu í september 1886 ásamt Frí-
manni B. Anderson, en samdi ekki við hann og hvarf frá blaðinu í árslok.
Enn hafði hann ekki fasta atvinnu og á næstu tveimur árum varð hann fyrir
þeirri sáru raun að kona hans og tveir barnungir drengir þeirra hjóna lét-
ust. Svo hermdi Thea Hermann að Einari hefði legið við sturlun af sorg
eftir þennan ástvinamissi en þau fóstri hennar séra Jón Bjarnason og Rann-
veig Briem hefðu þá stutt hann svo að hann hélt réttum áttum gegnum
svartnætti angistarinnar.
I janúar 1888 tók Einar höndum saman við nokkra Islendinga, er studdu
Frjálslynda flokkinn í kanadískum stjórnmálum, og stofnaði blaðið Lög-
berg og var hann síðan ritstjóri þess til loka Kanadadvalar sinnar. Hann
kvæntist aftur í september 1888 íslenskri konu, Gíslínu Gísladóttur, og
eignuðust þau fimm börn saman.
Félagslíf Islendinga í Vesturheimi stóð með miklum blóma öll þau ár sem
Einar dvaldist þar og var hann löngum nærri miðjum vettvangi atburða og
átaka. Heimskringla og aðstandendur hennar studdu að málum íhalds-
flokkinn kanadíska og í Lögbergi háði Einar grimmilegar blaðadeilur við
Heimskringlumenn, ekki síst eftir að Gestur Pálsson gerðist ritstjóri blaðs-
ins 1890 og síðar Jón Ólafsson. Flokkadrættirnir meðal Vestur-Islendinga
voru heiftúðugir á þessum árum og skipuðust þeir í fylkingar í stórum
dráttum eftir sömu línum og þeir studdu blöðin. Jafnvel bindindishreyfing-
in var tvískipt og var Einar forystumaður í stúkunni sem Lögbergsmenn
studdu. Trúmáladeilur settu mikinn svip á mannlífið og studdi Einar séra