Andvari - 01.01.1996, Blaðsíða 109
andvari
NÚTÍMALEG SKÁLDSAGNAGERÐ
107
hvernig Jón fíflar konuna, en fyrst fær hann hana til að sýna á sér brjóstin
með fortölum og gamansemi:
Með titrandi fingrum leysti stúlkan nú af sér lífstykkið. Brjóstin hlupu fram.
„Þetta er ekki nóg!“ sagði Jón og hló.
„Almáttugur!" tautaði konan. (...)
Stúlkan hélt áfram að malda í móinn og tína af sér fötin. (...) Ioksins hafði hún
afhjúpað listaverkið algerlega fyrir augunum á Jóni. Og nú stóð það þarna á gólfinu
fyrir framan hann alls nakið og lifandi. Jón skalf og kyngdi. Hann horfði soltnum
augum og naut í algleymis hrifningu. „Það held ég, að ég sé orðin vitlaus!“ tautaði
konan. En svo rétti hún sig upp. Hún breiddi út hvítan faðminn og sagði: „Taktu mig
nú!“ (55-56)
Áður en af því verður lætur Jón hana þó spígspora nakta um gólfið og
meira að segja fara upp á stóla og borð. En dynkur heyrist í næsta herbergi
þegar leikurinn berst í rúmið, því auðvitað fellur unnustan Svava í ómegin.
Er skemmst frá því að segja að litlu síðar er hún komin með tæringu, leggst
inn á Vífilsstaði og deyr.
í seinni bókarhlutanum er sagt frá því hvernig glæsimennið og þorparinn
Jón á Grund prílar upp mannvirðingastigann með svikum og öðru bralli.
Áður en Jón hættir starfi sem forsætisráðherra skipar hann sjálfan sig
bankastjóra í Norska bankanum sem fulltrúa íslenska ríkisins, enda hafði
hann fundið að bankastjórar gátu verið valdameiri en sjálfur forsætisráð-
herrann. „Bankastjóri var fyrsta og æðsta örlagavald þessa lands. Stjórnar-
ráð var ekkert til. Landsstjórn engin til. Hér var engin stjórn, nema banka-
stjórn“ (140-141). Þess má geta að Sigurður Eggerz, sem var forsætisráð-
herra á árunum 1922-1924, skipaði sjálfan sig bankastjóra í íslandsbanka,
svo fyrirmyndin hefur verið nærtæk hvað þetta atriði varðar.
Áður en skilist er við þessa sögu má til gamans geta þess, að hún fékk
allgóðar viðtökur í blöðum og tímaritum. Ritdómari Alþýðublaðsins tekur
bókinni fagnandi og segir hana nýjung á margan hátt, þar sem flett sé tæpi-
tungulaust og þó hóglátlega ofan af spillingu auðvaldsins í landinu (20/11
1924). Tíminn kemst að þeirri niðurstöðu að persónur bókarinnar séu yfir-
leitt frekar neikvæðar en líklega sé þó bóndinn „Eyjólfur gamli á Brekku
(. . .) skárstur“ (12/9 1925). Jakob Smári bendir á að af sögunni að dæma
hafi höfundur lítið álit á kvenþjóðinni, og einnig segir hann að fjármál í
sögunni séu í stökustu óreiðu. „Hefir orðið all mikill hvellur út af því hér í
bænum, að bankamaður skuli rita aðra eins lýsingu,“ segir Jakob. „En sá
hvellur virðist mér alveg ástæðulaus. (...) og maður þarf ekki að vera
bankastarfsmaður, til þess að fara nærri um hvernig það kann að ganga til í
bönkunum stundum. Þetta er ein sú djarflegasta bók sem rituð hefir verið á
Islandi á síðari árum.“ (Vísir 20/111924) Þá þykir Jakobi að lýsingin á ásta-
fari Jóns megi „ekki miklu greinilegri vera“.