Andvari - 01.01.1996, Blaðsíða 16
14
EINAR ÓLAFSSON
ANDVARI
Námsár
Að Ölvisholti barst blaðið Ingólfur, sem var málgagn þeirra sem
lengst vildu ganga í sjálfstæðisbaráttunni, en stundum sást Lögrétta.
Brynjólfur var strax sem barn gallharður sjálfstæðismaður í þeirrar
tíðar merkingu, en þá skiptu leiðir sjálfstæðisbaráttunnar mönnum í
stjórnmálafylkingar. Þannig lá pólitíska landið þegar Brynjólfur kom
til Reykjavíkur árið 1913. Þó var í þann veginn að verða breyting á,
enda var þróun íslensks auðvalds mjög ör á þessum árum.
Pegar Brynjólfur kom í Menntaskólann varð hann heimagangur á
heimili Hendriks Ottóssonar, en faðir hans, Ottó N. Þorláksson, var í
forystusveit reykvískra verkamanna. I afmælisgrein um Hendrik sex-
tugan skrifaði Brynjólfur: „Við vorum bekkjarbræður í Menntaskól-
anum í þrjá vetur. Ég var þá sveitadrengur og allur áhugi minn á
stjórnmálum var bundinn við sjálfstæðisbaráttuna við Dani. Hendrik
benti mér á að til væri önnur hugsjón, ennþá stærri í sniðum, og
reyndi að útskýra fyrir mér tengslin milli sjálfstæðisbaráttunnar og
frelsisbaráttu verkalýðsins.“4
Eftir að stríðið hófst skerptust stéttaandstæður. Verðlag hækkaði
gífurlega en kaup verkafólks og sjómanna stóð í stað. Haustið 1915
hreyfði Ottó N. Þorláksson því innan Verkamannafélagsins Dags-
brúnar að tímabært væri að stofna heildarsamtök verkalýðsins. Hug-
myndinni var vel tekið í verkalýðshreyfingunni og var Ottó skipaður
í undirbúningsnefnd ásamt Ólafi Friðrikssyni og Jónasi Jónssyni frá
Hriflu. Ólafur var þá nýkominn frá Akureyri þar sem hann hafði fyrr
á árinu stofnað fyrsta jafnaðarmannafélag á íslandi, en það varð
skammlíft. Alþýðusambandið var stofnað í mars 1916 og var jafn-
framt stjórnmálaflokkur, Alþýðuflokkurinn. Ottó varð fyrsti forseti
þess þar til um haustið að Jón Baldvinsson tók við á fyrsta þingi þess.
Vorið 1916 urðu hörðustu stéttaátök fram til þess tíma, þegar hásetar
fóru í tveggja vikna verkfall. „Ég var af alþýðufólki kominn,“ sagði
Brynjólfur, „og fékk strax áhuga á þessari hreyfingu.“
Þar eð Alþýðusambandið var í senn samband verkalýðsfélaga
og pólitískur flokkur, þótti þörf á að stofna stjórnmálafélag innan
þess og í mars 1917 var Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur stofnað.
Fyrsti fundur til að undirbúa stofnun þess var haldinn á heimili Ottós
N. Þorlákssonar og Hendrik sonur hans var valinn í fyrstu stjórn