Skírnir - 01.01.1938, Síða 23
Skírnir]
Uppruni Landnámabókar.
21
Ari hinn fróði hafði skrásett og samrýmt til einnar heild-
ar landnámssögur hinna ýmsu héraða, hefir handrit Kol-
skeggs verið lagt við safnið í sínu sérkennilega formi. Af-
ritara frumlandnámu, sem hefir vitað skil á höfundi þessa
Landnámukafla, hefir því orðið það á, er komið var að
handriti Kolskeggs, að skjóta inn orðunum: „Nú hefir
Kolskeggur fyrir sagt héðan frá um landnám".
Landnámssögu sérhvers fjórðungs fylgir, sem kunnugt
er, skrá yfir göfugustu landnámsmennina. Hefi ég í Skírni
1936 sýnt fram á, að þar eru taldir upp ættfeður löggoða-
ættanna. í skrám þessum standa nöfn hinna tignu land-
nema án nokkurrar skýringar, nema Austurskaftfelling-
anna. Orsök þessa afbrigðis liggur í augum uppi. Sökum
þess, að eyða hefir verið í Landnámubók Ara, þar sem nú
er Kolskeggskaflinn, hefir honum að vonum þótt ástæða til
að gera nánari grein fyrir Hrollaugi Rögnvaldssyni og
Össuri Ásbjarnarsyni en öðrum ættfeðrum löggoðanna.
Jafnframt getum vér ráðið af þessu, þótt öðru væri ekki
til að dreifa, að samstarf hafi verið milli Ara og Kol-
skeggs um landnámaritunina. Að öðrum kosti væri það
óskýranlegt, hvers vegna Ari og samstarfsmenn hans
hefðu að fullu og öllu látið Suðausturlandið sitja á hakan-
um við landnámaskráninguna.
Þeirri kenningu hefir verið haldið fram, að það sé að-
eins ályktun Hauks lögmanns Erlendssonar, að Ari og Kol-
skeggur hafi fengizt við landnámaritun, og að Landnáma-
bók sé fyrst í letur færð á öndverðri 13. öld. Hvorttveggja
er jafn fráleitt. Vér þurfum ekki annað en líta á eftir-
mála Hauks, til að ganga úr skugga um það, að hann er
ekki upphafsmaður þeirrar frásagnar, að Kolskeggur og
Ari hafi fært frumlandnámu í letur. I eftirmálanum er
Kolskeggur kallaður „hinn vitri“, en í Landnámutexta
Hauks og Sturlubók ávallt „hinn fróði“. Þetta bendir ótví-
rætt til þess, að frásögnina um Landnámuritun Ara og Kol-
skeggs hafi Haukur sótt í Styrmisbók. Mátti Styrmi hinum
fróða vera það kunnugt, hvaða heimildir hann notaði við
Landnámuritun sína. Það er því öðru nær en að Haukur