Skírnir - 01.01.1938, Síða 67
Skírnir] Endurminningar frá ísaárunum 1880—86.
65
hafþökin því líkt, sem þeir litist um gegn um sjónauka.
Þó að Matthías geti um „hungurdiska", sem „Helja hendi
yfir gráð“, þ. e. sjóinn, mun hann eigi hafa etið frosið
skyr inni í baðstofukytru, sem reynt var að ylja með því
móti að moka snjó á glugga, eða leggja íshellu utan yfir
gluggaskansinn. — Og þó að E. B. drepi á það, að „á
handvað gangi fóturinn þur“, mun hann hafa verið
ódæmdur til þeirrar leikfimi, sem er í því fólgin að hlaupa
inn í baðstofu utan úr stórveldi hörkunnar og berja sam-
an fótunum, til að fá blóð í tær og iljar, sem lá við að
kæli.
Með öðrum orðum. Þeir horfa á ísinn úr fjarska — ef
til vill út um glugga; hafa eigi bitið í jakarendur, né
gengið reka, þegar augalaus hafþök lágu fyrir landi, —
einu lífsmörkin yfir dal og sveit þau: að strjálir reykir
læddust upp úr eldhúsastrompum bæjanna; tófuslóð í flæð-
armáli, ein eða tvær, hrafn á flökti yfir beljökunum, sem
engin tunga gat talið, því að þeirra mergð er sem stjörn-
ur himins, eða sandkorn á sjávarströnd. Þessi skáld könn-
uðu eigi þá skókreppu, sem frostið bauð og gaf rekagöngu-
sveinstaulanum, sem skalf af hræðslu við að mæta bjarn-
dýri, vopnlaus og verjulítill; landið drepið í Dróma, sjór-
inn lagður í Læðing.
Eg hefi eigi borið mér í munn kvæði Hannesar um haf-
ísinn. Það er, á yfirborðinu, um sækonung, sem lendir í
skrúfstykki „landsins forna fjanda“. En undir niðri er
Það um stjórnmálamann, sem leggur sjálfan sig í sölurn-
ar, til þess að bjarga þeim, sem hann á að ábyrgjast. Og
skipinu opnast leið í auðan sjó. Það skip „átti í vök að
verjast".
Land vort og þjóðin mestöll á í vök að verjast, þegar
hafísinn hefir Fjallkonuna í bóndabeygju. Þeir, sem búa
Gólfstraums-megin á landi voru, þekkja eigi ofríki „silfur-
flota“-konungsins — nema þá af afspurn. Ferðafólk, sem
sækir á sumrin á öræfi jöklanna, mundi „reka upp stór
augu“, ef það stæði andspænis þeim hvítu heljargreipum,
sem landfastur hafís „leggur á borðið".
5