Skírnir - 01.01.1938, Page 100
98
Siðgæðisvitund og skapgerðarlist.
[Skírnir
og fremst fólgið í því, að hamla spillandi hneigðum, þótt
slíkt sé að vísu nauðsynlegt, heldur miklu fremur í hinu,
að gefa athafnahneigð barnsins sem bezt tækifæri til
þroskunar, fá henni viðfangsefni, sem altaka hug barns-
ins, svo að honum gefist ekki tóm til að snúast að hinu illa.
Því betur sem barnið framfylgir athafnahneigð sinni,
því rækilegar innrætir það sér siðgæðisanda heildarinn-
ar. Því að leikir og störf fara fram í félagslegu umhverfi,
og barnið mætir sífellt erfiðleikum, sem það verður að
sigrast á, og lögmálum, sem það verður að lúta. Þess vegna
grípur hygginn menntgjafi aldrei af handahófi inn í at-
hafnir barnsins, lætur aldrei sérvizku né duttlunga ráða
gerðum sínum, en ávinnur sér traust þess með því að láta
sérvilja sinn lúta hlutrænum rökum viðfangsefnisins, eins
og hann krefst af barninu. Slík nauðsyn og fyrirmynd er
barninu miklu skiljanlegri og áhrifaríkari en siðferðis-
prédikanir. Starf menntgjafans ber því betri árangur,
sem honum sjálfum er eiginlegri sá andi, sem hann vill
miðla. Ekkert er uppeldinu skaðlegra en skinhelgi. Því
varðar það afar miklu, að heimilin eigi góðan anda og ræki
göfgandi siði, sem barnið vex inn í og andar að sér með
lífsloftinu. Góður heimilisandi er ótæmandi brunnur hollra
uppeldisáhrifa. I honum finnur einstaklingsbundin sið-
gæðisvitund barnsins næringu, svo að vilji þess vex og
þroskast og hefst yfir sljóleika sinn. Heimilisandinn ræð-
ur svo miklu um viðfangsefni barnsviljans, að hann hefir
djúp og varanleg áhrif á siðgæðisþroskun þess. Hitt er
líka sannað, að langflest þeirra barna, sem sýna alvarlega
siðgæðisgalla, koma frá siðferðilega spilltum heimilum-
Gott heimili er því foreldrunum bezt trygging fyrir góðu
uppeldi barnsins. En um leið beinist uppeldisvitund þeirra
að þeim sjálfum. Því að andi heimilisins er þeirra eigin
andi. Uppeldisstarfið er skylda gagnvart barninu, en jafn-
framt birtist það sem krafa um sjálfsgöfgun foreldranna.
Allt uppeldisstarf byggist á sjálfsgöfgun menntgjafans
og stefnir að sjálfsgöfgun menntþegjans.