Skírnir - 01.01.1938, Síða 164
162
Stjörnu-Oddi Helgason og íslenzk vísindasaga. [Skírnir
Oddi hafi verið ekki síðri að viti en hinir frægu samtíðar-
menn hans, Sæmundur og Ari, þó að því viti væri nokk-
uð á annan veg háttað. Og vissulega eru slíkir menn sú
bending um ætlunarverk þjóðar vorrar, sem ennþá hefir
ekki verið metin til fulls.
II.
Af Stjörnu-Odda er til sögubrot, þar sem draumur
einn, er hann dreymdi, er aðalefnið. Má það að vísu til
sanns vegar færast, sem dr. Þorkell Þorkelsson segir, að;
draumurinn sé ekki merkilegur, en þrátt fyrir það er
hann, eins og enn skal sýnt verða, stórfróðlegur. Af ætt
Odda er oss, í þessari sögu hans, ekkert sagt fram yfir
föðurnafnið, og af líkamsatgervi hans alls ekkert. En þó
er í hinni stuttu lýsingu, líkt að orði komizt og um Gunn-
ar og Njál í hinni ágætustu sögu. Þar segir svo: Oddi
„var rímkænn maðr, svá at engi maðr var hans maki
samtíða á öllu Islandi, ok at mörgu var hann annars vitr.
Ekki var hann skáld né kvæðinn. Þess er þó einkum get-
ið um hans ráð, at þat höfðu menn fyrir satt, at hann
lygi aldri, ef hann vissi satt at segja, ok at öllu var hann
ráðvandr kallaðr ok tryggðarmaðr hinn mesti; félítill var
hann ok ekki mikill verkmaðr“.
Lýsing þessi er eftirtektarverð, og ekki hefir þar
brugðizt hin íslenzka glöggskygni á lyndisfar mannsins.
Oss kemur ekki á óvart að heyra, að spekingurinn hafi fé-
lítill verið. En þar sem sagt er að hann hafi ekki mikill
verkmaður verið, koma oss í hug orðin, sem farandkon-
urnar höfðu um Njál, er hann sat auðum höndum. Er
þess vanalega ekki gætt, að slíkir menn geta verið að
vinna eða undirbúa mikið og merkilegt verk, þó að þeir
hafist ekki að, sem kallað er.
III.
Oddi „var á vist“ með þeim manni, er Þórður hét og
bjó í Múla „norðr í Reykjardal". Er frá því sagt, að Oddi
fór út til Flateyjar (á Skjálfanda) fyrir þennan húsbónda.