Skírnir - 01.01.1938, Qupperneq 171
Skírnir] Björn Gunnlaugsson og Uppdráttur íslands.
169
sem að einhverju leyti störfuðu að mælingunni. Mestan
þátt í henni átti H. Frisak og H. J. Scheel, og hinn síðar
nefndi reiknaði auk þess að mestu út þríhyrninganetið.
Þótt kröfurnar til nákvæmra sjókorta yrðu stöðugt
meiri, er þó hægt að segja, að með uppdráttum þeim, sem
strandmælendur gerðu, hafi verið ráðin bót á brýnustu
nauðsyn, og ekki hefði mátt teljast óeðlilegt, að við svo
búið væri látið standa um tíma. Að vísu voru byggðir
ómældar að mestu, og allar óbyggðir, en enginn samjöfn-
uður er á því, hve miklu minni þörf var á að fá uppdrátt
af þessu heldur en sjókortin. Samt sem áður voru þeir
menn til, sem löngun höfðu til þess, að slíkur uppdráttur
yrði gerður, og ber þar fyrst að nefna Björn Gunnlaugsson.
Mörgum er það án efa ekki ljóst, hvaða þýðingu slíkur
uppdráttur getur haft. Þótt sumum mönnum, ef til vill,
gæti þótt gaman að því, að uppdráttur sem þessi yrði
gerður, er fyrirtæki þetta svo mikið, að fé myndi tæplega
hafa fengizt til verksins, ef aðrar ástæður hefðu ekki verið
fyrir hendi. Samfara auknum framkvæmdum í landinu,
hefir þörfin fyrir uppdrætti einnig aukizt að miklum mun.
Uppdrættirnir gefa heildaryfirlit, sem annars er ekki
hægt að fá, nema með margra ára ferðalögum. Á upp-
drættinum er hægt að ákveða að nokkru leyti, hvar heppi-
legast er að leggja vegi eða síma. Uppdrátturinn sýnir
vatnasvið ánna, og hefir það mikla þýðingu fyrir virkj-
un. Uppdrættir eru nær ómissandi við jarðfræðirannsókn-
ir, og þannig mætti lengi telja.
Ekki má heldur gleyma því, hvaða not ferðamenn hafa
af uppdráttum.
Fyrir rúmum 100 árum mun þó ekkert þessara atriða
hafa verið eins þungt á metunum og nú. Þegar Bókmennta-
félagsdeildin í Reykjavík samþykkti, skömmu eftir ára-
mótin 1831, að félagið skyldi árlega verja nokkru af tekj-
um sínum, til þess að gera uppdrætti af því, sem ómælt
var af íslandi, þá var það ekki beinlínis notkun uppdrátta
til hagnýtra þarfa, sem því réði, heldur þörf manna til að
fá aukna þekkingu á landinu. Það er fróðleiksfýsn Islend-