Skírnir - 01.01.1938, Page 176
Töfrar bragarháttanna.
Eftir Guðm. Finnbogason.
Hver maður, sem margt hefir lesið og heyrt af kvæð-
um, hlýtur að hafa fundið til þess leynt eða ljóst, að hverj-
um bragarhætti fylgir sinn geðblær. Bragarhátturinn er
sem hjartaslög og andardráttur kvæðisins. Hann er hreyf-
ingarform, og ef vér viljum gera oss hann innlífan og
finna hvað í honum býr, þá verður það skýrast með því að
slá hann, eða stíga hann eða tralla. Eg ætla að reyna að
taka dæmi nokkurra bragarhátta, benda á mismun þeirra
og athuga, hvernig þessi mismunur háttanna veldur því,
að hverjum þeirra fylgir sinn geðblærinn eða skapið. En
fyrst verður þá að rifja upp nokkur allra einföldustu at-
riði bragfræðinnar.
Tökum þessa alkunnu vísu eftir Pál ólafsson:
Rangá fannst mér þykkju-þung,
þröng mér sýndi dauðans göng,
svangan vildi svelgja lung,
söng í hverri jakaspöng.
I vísunni eru fjórar braglínur, allar jafnlangar, sjö at-
kvæði í hverri. Þessi atkvæði braglínunnar skiptast í fjóra
bragliði. Hér eru bragliðirnir nefndir réttir tvíliðir, af því
að tvö atkvæði eru í hverjum, áherzluatkvæði með áherzlu-
lausu eða léttu atkvæði á eftir: Rangá | fannst mér |
þykkju | þung; síðasti bragliðurinn er kallaður stýfður, af
því að áherzlulausa atkvæðið vantar. I mörgum kvæðum
koma líka fyrir réttir þríliðir, þ. e. áherzluatkvæði með
tveimur léttum atkvæðum á eftir, eins og í orðunum minn-
ugur eða kveðandi.— Næsta atriðið eru ljóðstafirnir, stuðl-