Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Page 28
rétt væri að greina stjúpu- og álagaminnið niður í tvær gerðir, sem greinir á
um ýmsa afgerandi þætti. Gerðirnar eru: vonda stjúpan og ástleitna stjúpan.
Það sem einkennir vondu stjúpuna er að henni líkar ekki við stjúpbarn /
-börn af einhverri ástæðu og leggur á þau eða gerir þeim annan miska.
Ástleitna stjúpan hins vegar, eins og auðkenni hennar ber með sér, leitar ásta
við stjúpson sinn. Hún leggur á hann vegna höfnunar og felast álög hennar
stundum í sendiför eftir ákveðinni konu.2 Sameiginleg einkenni hafa þó
báðar gerðirnar: hin illa stjúpa er forsenda sögunnar og álög hennar sá
kraftur sem rekur atburði áfram.
Aukþessarar grunnflokkunar hef ég skipt minninu sjálfu niður í fimmtán
liði eða hlutverk. Flest hlutverkin hafa undirflokka, því að sögurnar innihalda
mismunandi aukaminni (eða afbrigði), sem þó geta gegnt sama hlutverki.
Fyrstu tólf liðirnir tilheyra „stjúpuminninu“. Þeir segja sögu stjúpunnar fyrir
vendipunktinn, þ.e. álögin eða illvirkin. Þrír síðustu liðirnir innihalda svo
sjálfan álaga- eða illvirkjaþáttinn. Samkvæmt þessum fimmtán hlutverkum
hef ég greint flestöll íslensk stjúpuævintýri sem innihalda þrjú eða fleiri
hlutverk. Tilgangurinn með þessari sundurgreiningu var að auðvelda sam-
anburð ævintýranna, enda má af þessu rekja skyldleika milli sagnanna, auk
þess sem kerfisbundin uppbygging ævintýranna liggur ljósari fyrir en ella.
Flokkunin er sem hér segir:3
Stjúpuminnið:
1. Kóngur og drottning eiga
a) son.
b) dóttur.
c) fleiri en eitt barn.
2. Drottning deyr
a) vegna sóttar.
b) af ónefndum ástæðum.
3. Kóngur syrgir mjög og
a) sinnir ekki ríkisstjórn.
b) situr á haugi drottningar.
c) harmar drottningu með öðru móti.
4. Ráðgjafar biðja kóng / bjóðast til að leita nýrrar konu.
5. a) Ráðgjafar eru sendir í konuleit.
b) Kóngur fer sjálfúr í konuleit.
c) Kóngur fær konu án leitar (eða leit ekki tiltekin).
d) Konan kemur sjálf til kóngs.
6. Kóngsmenn fá myrkur (þoku) og hafvillur og
a) lenda á eyju.
b) koma að óþekktu landi.
26 TMM 1995:3