Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Page 41
krókríðandi og öðrum sögum nátengdum þjóðtrúnni og keimlíkum um
viðureignir ráðagóðra barna kotkarla við heimsku og ófrýnilegu tröllin í
fjöllunum að þar hafa sagnamennirnir hvergi hruggað við íslenskri náttúru
heldur látið þetta „reynslu ríki“ þjóðarinnar óbreytt.
En stundum virðist íslendingum hafa orðið nauðugur einn kostur að gera
sem mest úr hugarburðinum, að minnsta kosti þegar þeir höfðu íslenskt
landslag að uppistöðu og hið fríðasta skóglendi sem ívaf í sögusvið hæfilega
ókunnuglegt áheyrendunum til að útlent efni í ævintýrunum nyti sín sem
best. 1 þeim ævintýrum komu einnig fleiri við sögu svo sem kóngar og
drottningar í ríki sínu og þeirra börn sem allir vissu að áttu heima erlendis
og að auki er þar getið um ýmis dýr og fugla, ferleg skrímsli, tröllskessur sem
tóku hinum fegurstu og fýrirmannlegustu hamskiptum þegar þær komu í
mannheima og aðrar ókunnuglegar vættir auk fjölda framandi töfragripa á
hverju strái. Þá forðuðust sögukarlarnir og -kerlingarnar sem mest að nefna
einhver kunn lönd þar sem ævintýrakonungarnir útlendu áttu að ráða
ríkjum svo að jafnvel víðförlustu menn áttu ekki auðvelt með að gagnrýna
landalýsingarnar með rökum hefði þeim dottið það í hug.
„Raun og vera“ eru samt nálægari í þessum kynjaævintýrum, sem sann-
arlega bera nafn með meiri rentu en búast mætti við að óreyndu, og er þá
fyrst að huga að ævintýrakóngunum skylduliði þeirra, ráðgjöfum og stjórn-
arháttum. Einna þekktust þeirra eru stjúpusögurnar og hefjast þær oftast á
því að drottningarnar deyja og kóngarnir verða óhuggandi, svo að æðsti
ráðgjafmn neyðist til að bera
upp við konung, eins og
stendur í Sögunni af Líneik
og Laufey, „þau vankvæði
lýðsins að ríkisgæslan færi
öll í ólestri og að hann sinnti
ekki stjórnarstörfum sökum
harms og trega eftir drottn-
ingu sína.“ Hitt sé „konung-
legra að herða upp hugann
og hyggja af hörmum sínum“
en leita þess ráðs sem honum „væri sæmd og virðing í.“ Konungur tekur
þessu vel og sendir ráðgjafann ásamt fríðu föruneyti þessara erindagerða en
tókst það vanalega öllu verr en evrópskum konungum og öðrum höfðingj-
um í álfúnni. Þeir höfðu sent menn sína í biðilsferðir um langan aldur og
tekist sæmilega eins og efling þjóðríkjanna í álfunni ber gleggst vitni; sést á
því að sendimennirnir hafa verið nógu glöggskygnir til að ekki þyrfti að
áskilja við þá að kjósa ekki konu „í smábæjum eða úteyjum" en einmitt þessa
TMM 1995:3
39