Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Side 60
Silja Aðalsteinsdóttir
Draumar Þorgríms
Undanfarin sex ár hefur enginn unglingabókahöfundur haft roð við Þor-
grími Þráinssyni að vinsældum. Hann geystist inn á markaðinn 1989 með
bókina Meðfiðring í tánum og sló öllum við sem fyrir voru. Ennþá söluhærri
urðu næstu bækur uns hámarki var náð með Bak við bláu augun (1992).
Reynslan hefur verið sú að unglingabókahöfundar haldi ekki toppsæti nema
í nokkur ár í senn, og nú mun vera lægð í vinsældum Þorgríms, enda hefur
framleiðslan verið mikil, átta bækur á sex árum.
í þessari grein er ætlunin að velta fyrir sér hvers vegna einkum fyrstu
bækur Þorgríms urðu svona vinsælar bæði meðal stelpna og stráka. Auðvitað
væri einfalt að svara því með fáeinum setningum, en það er mun meira
gaman að gera sér mat úr hlutunum. Hugmyndina að þessari athugun fékk
ég þegar ég las verk norska bókmenntafræðingsins Gudleivs Bo sem gaf út
doktorsritgerð sína 1991 um afþreyingarbókmenntir og kynhlutverk. Hann
kom til íslands á IASS-þing í fyrra og hélt þar fyrirlesturinn „Incompatible
fantasies“ um ólíka drauma í bókum fyrir konur og karla, unglingsstelpur
og stráka. Hann skoðar þar „karlaseríuna“ um Morgan Kane, einfarann
slynga í Villta vestrinu, og ástarsöguseríu fyrir ungar stúlkur í vikublaðinu
Det Nye. Eins og titill fyrirlestrarins ber með sér telur hann óskadraumana
sem kynin ala með sér ósamrýmanlega, en spurningin er hvort vinsældir
bóka Þorgríms Þráinssonar stafa ekki einmitt af því að þar hafi hann
sameinað þessa ólíku drauma.
Kynjadraumar
Stúlkur og drengi dreymir ólíka dagdrauma, en þótt undarlegt sé snúast þeir
allir endanlega um karlmenn, segir Gudleiv Bo. Stráka dreymir um að sigra
aðra stráka í keppni eða leik, stelpur dreymir um að vinna ástir stráka. Þetta
kemur vel fram í vali unglinga á afþreyingarbókum. Drengir velja bækur um
karlkyns hetjur sem eiga í höggi við aðra karla og sigrast á þeim. Sigurlaunin
geta svo verið ástir fallegrar stúlku, til skemmri eða lengri tíma. Stúlkurnar
58
TMM 1995:3