Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Side 109
óttast sífellt að einhver ráðist inn á heimilið, enda hefur leigusalinn lykil að
íbúðinni. Þetta lýsir óskynsömum ótta við fólk: paranoju eða ofsóknar-
kennd. Samkvæmt geðlæknisfræðinni7 einkennist paranoja af ranghug-
myndum um ofsóknir á hendur sér en þó ekki alltaf. Þeir sem eru paranoíd
eru sérlega sjálfhverfir og óhóflega viðkvæmir fyrir raunverulegri eða ímynd-
aðri auðmýkingu og höfnun en þetta tengist oft sjálfbirgingshætti, bardaga-
fýsn og árásargirni. f paranojunni er ofsóknarkenndin algengust,
viðkomandi rangtúlkar með sjúklegum hætti samband sitt við annað fólk.
Einkennin birtast líka í því að viðkomandi heldur að allir séu að fylgjast með
sér. Hann getur ekki að því gert að honum finnst eins og aðrir hafi stöðugt
auga með sér á almannafæri og taki eftir því í fari hans sem hann vill ekki að
sé öðrum sýnilegt.
Ofsóknarkenndin birtist síðan oft í því að viðkomandi finnst eins og
einstaklingar, samtök eða ókennileg öfl reyni að skaða hann með einhverjum
hætti; eyðileggja mannorð hans, meiða hann líkamlega, gera hann brjálaðan
(sem hann þó virðist vera fýrir!), eða drepa. Einkennin geta birst í margs
konar formi, allt frá því að einhver sé á hælunum á viðkomandi til flókinna
og útsmoginna plotta sem slá út hvaða vísindaskáldskap sem er.
Ég hætti mér ekki út á þann hála ís að skýra og skilgreina orsakir paranoj-
unnar enda eru þær umdeildar. Þó vil ég vitna til Freuds sem hélt því fram
að hjá viðkvæmu og næmu fólki gætu einkenni paranojunnar brotist fram
gegnum varnarhætti höfnunar og ffávarps. Hann taldi að maðurinn viður-
kenndi ekki í meðvitundinni eigin misbresti og vantraust á sjálfum sér
heldur varpaði því á umhverfið, — eignaði öðrum þessar kenndir.8 Franski
sálkönnuðurinn Lacan taldi síðan að paranojan væri fyrir hendi í sálarlífi
hvers manns — mismunandi svæsin þó.9
Ég ætla mér ekki að sjúkdómsgreina skáldsöguna Leigjandann eða per-
sónur hennar — en ég mun leitast við að sýna hvernig eðlileg mynstur
sálsýkinnar breytast í sálsjúk viðmið, hvernig ótryggum mörkum sálarlífsins
er varpað á umhverfið og verða ekki aðeins að landamærum heldur járn-
tjöldum og varnarbandalögum.
Uggvænleg kyrrð
„Maður er svo öryggislaus“, segir konan í Leigjandanum og öryggisleysið
tekur í raun af henni ráðin. „Aldrei hafði öryggisleysið tekið jafnskýlaust af
henni ráðin og daginn sem leigjandinn kom“, (7) segir í sögunni. Konunni
finnst sem menn sitji um heimili hennar, ekki endilega til að ræna og rupla,
heldur til þess eins að ráðast inn í einkalíf hennar. Hún óttast það sem á eftir
TMM 1995:3
107