Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Síða 113
fann taugar og æðar liggja viðstöðulaust út í veggi þessa húss, fann hjartað
dæla hennar eigin blóði þangað sem steypan markaði henni rúm í tilverunni.
Þannig gekk hún blindandi meðfram öllum veggjum stofunnar og fullvissaði
sig um að bergmál hruninna veggja hafðiverið ímyndun.“ (101) Hún finnur
fyrir styrk sínum innan veggja hússins og segja má að þetta undirstriki enn
frekar hversu bundin konan er heimilinu, veggir heimilisins eru bæði sál-
ffæðileg og líkamleg mörk hennar, halda því inni sem á að vera inni og því
úti sem á að vera úti.
Öryggið sem konan fann fyrir er blekking því að um leið og annar
ókunnur maður sést á vappi í fjörunni fyrir neðan húsið grípur öryggisleysið
hana á ný. Þegar hún sér hann fyrst segir hún: „Sjáiði manninn!" (102) en
það er bein vísun í orð Pílatusar þegar hann framseldi gyðingum Jesú til
krossfestingar. („Sjá þar er maðurinn!“ Jóh. 19,6).11
Maðurinn á ströndinni er ríkisfangslaus, illa búinn og þeim stafar engin
ógn af honum en það er eins og hann blasi alltaf við augum, jafnvel þótt
maður sé alls ekki að horfa á hann! Þótt hann líti ekki heim að húsinu og
skipti sér ekkert af þeim er hann samt uppáþrengjandi. „Þetta upphafna
skeytingarleysi vakti henni gremju. Menn gátu líka truflað með því að koma
ekki nær.“ (105) Enn er hamrað á því að engum sé treystandi, maður sem
virðist meinlaus getur verið hættulegur og tilbúinn til að gera manni allt til
miska. Maðurinn reikar um ströndina og það er ekki fyrr en á aðfangadags-
kvöld að hann bankar upp á (enn ein vísunin í Krist). Þau eru þá að leggja
til atlögu við jólagæsina og eiga sér einskis ills von enda fáir svo ósvífnir að
koma á slíkri stundu og rjúfa helgi jólanna. Konan skipar manni sínum að
opna en hann getur það ekki þar sem annar fótur hans er nánast horfinn. I
vandræðum sínum lítur hann á leigjandann án þess að segja orð. Leigjandinn
sem einnig hefur staðið upp, heiftarlega og ógætnislega, er alveg jafn mátt-
vana og Pétur. Þeir styðja hvor annan og renna hægt saman: verða einn
maður með tvö höfuð, fjórar hendur og tvo fætur. „Það er óneitanlega
þægilegra að hafa báða fætur jafnlanga“, (126) segir Pétur.
Konan verður því sjálf að fara til dyra. Maðurinn á útidyratröppunum
virðist blóðugur og þegar konan horfir í augu hans speglast þar ekkert. Þau
eru tóm — gesturinn er ekki af þessum heimi. Áður varð konan aðeins
manneskja með því að spegla sig í augum annarra. Nú er hún það í eigin
augum. Hún ætlar sjálf að opna dyrnar upp á von og óvon „En þegar hún
lyfti handlegg féll hann undan eigin þunga. Hún fann tilfmningu hverfa,
liðamót stirðnuðu frá öxl og fram í fingur unz handleggurinn var steinrunn-
inn allur.“ (127)
TMM 1995:3
111