Skírnir - 01.01.1950, Blaðsíða 155
Skírnir
Landnám milli Þjórsár og Hvítár
145
dals, að enginn kunnugur maður, sem tæki sjónhending úr
Múla í Ingjaldsgnúp, mundi miða við Gyldarhaga.
Þessi skýring E. A. ber vott um ókunnugleik. Menn vita
með vissu um báða þá staði, sem hér er miðað við. Ingjalds-
hnúkur er nú að vísu ýmist kallaður Háhnúkur eða Ingjalds-
hnúkur, og Gyldarhaginn heitir nú Gyldurhagi, en það
skiptir ekki máli í þessu sambandi. Hér er vafalaust um
sömu staði að ræða. Á landabréfum Geodædisks Instituts eru
báðir þessir staðir sýndir með nafni og rétt settir. Er því
auðvelt að átta sig á afstöðunni fyrir hvern, er athugar þessi
landabréf.
Væri Gyldarhaginn í Reykjadalslandi, væri hann vissu-
lega langt frá sjónhendingu úr Múla í Ingjaldshnúk. En
hann er ekki í landi Reykjadals, heldur innst í landi Lauga,
en svo heitir næsti bær fyrir ofan Reykjadal. Hér skakkar
um 5 km., og er það mjög mikið frávik frá sjónhendingunni,
því að Ingjaldshnúkur er svo skammt fyrir austan Gyldar-
hagann.
Samkvæmt frásögn Landnámu á að draga landamerkjalín-
una úr Múla í Ingjaldshnúk. Stefnan í hnúkinn úr múlan-
um er lítið eitt vestar en í suðaustur. En í stað þess að draga
línuna í þá stefnu og enda í hnúknum, dregur E. A. hana í
háaustur fyrir innan alla bæi, sem nú eru í byggð, og end-
ar með hana austur við Stóru-Laxá, þar sem Leirá rennur
í hana. Sá staður er langt fyrir innan byggð, og eru þar
öræfi ein. Þar virðist hann gera ráð fyrir, að Ingjaldshnúk-
ur sé, en það er fjarri lagi. Þessi endapunktur E. A. er 16 km.
innar en Ingjaldshnúkurinn, og þegar Gyldarhaginn er sett-
ur 5 km. framar en rétt er, verður skekkjan samtals 21 km.,
og er þá vonlegt, að skakki frá sjónhendingu. Með þessum
hætti verður mestur hluti landnáms þeirra feðga grjót og
apall, en mikill hluti þess graslendis, er þeir hafa numið,
verður utan landnáms þeirra.
En hvort er þá miðunin, eins og hún er í Landnámu, rétt
eða röng?
Sé landabréf athugað eða staðhættir, kemur í ljós, að lína,
sem dregin er úr múlanum fyrir framan Stakksá í Ingjalds-
10