Skírnir - 01.04.1988, Side 50
44
HERMANN PÁLSSON
SKÍRNIR
í þriðja lagi eru hugmyndir þær sem fólgnar eru í orðræðum
manna. Um tvo fyrstu frumþættina er það skemmst að segja að þeir
hljóta að vera komnir frá Sverri sjálfum, sem er hvorutveggja í
senn: hetja og heimildarmaður, þótt vitaskuld sé hugsanlegt að
Karl hafi fært þetta í stílinn. Hér er mikilli mannraun lýst: Birki-
beinar örvilnast en Sverrir bregst karlmannlega við öllum andróða,
enda nýtur hann að lokum hjástoðar æðri máttarvalda.
Um hugmyndir þær sem birtast í viðræðum þeirra gegnir að því
leyti öðru máli en um hina þættina tvo, að þær eru að nokkru leyti
teknar úr bókum, og læt ég þó liggja milli hluta hvort það var Sverr-
ir sem tryggði hugmyndum þessum stað í frásögn eða Karl réð því
einn. I rauninni er það ærið ósennilegt að slíkar viðræður hafi átt
sér stað uppi í fjalli, og á hinn bóginn kemur það undarlega fyrir
sjónir að menn sem eru í þann veginn að verða frosti og byl að bráð
vilja binda enda á þrautirnar með því að ráða sjálfum sér bana.
Birkibeinar geta um tvenns konar aðferðir við sjálfsmorð. Hin
fyrri, „að ganga fyrir björg,“ minnir óneitanlega á Ætternisstapa í
Gautreks sögu og einnig á frásagnir af æðrufullum mönnum sem
hlaupa fyrir hamra, svo sem þeim verður Nagla í Eyrbyggju og
Hæringi í Grettlu. Hér er um heldur ömurleg örþrifaráð að ræða,
enda telur Sverrir þetta vera ærra manna tiltekju. Sumum Birki-
beinum þykir þessi norræna aðferð ekki til eftirbreytni og vilja
heldur taka til fornra minna og gera eftir dæmum hvatra manna,
þeirra er sjálfir bárust á vopn og drápust. Orðtakið „forn minni“
kemur einnig fyrir á tveim öðrum stöðum í fornum letrum vorum,
að því er ég best veit. I Málsháttakvæði er það auðsæilega notað
einkum um norræn goðsagna- og fornsagnaminni. Öðru máli
gegnir um Merlínusspá, sem klausturbróðir Karls ábóta snaraði úr
latínu:
Heldur fýsumst nú
fornra minna
miðsamleg rök
mönnum segja.
(Hauksbók, bls. 272)8
Oft verður mönnum skotist yfir einfalt atriði, sem sé að orðið
„forn“ var notað jöfnum höndum um norræna og suðræna fortíð,
og því ætti engum að koma á óvart þótt orðinu sé beitt um staðlaus-