Skírnir - 01.04.1988, Page 59
SKIRNIR
BÓK UM BÓK FRÁ BÓK . . .
53
Söguhetja Oscars Wilde, Dorian Gray, lætur binda sömu bókina
inn í níu mismunandi litum, til samræmis við skapbrigði sín. Hér
lítur Wilde ekki á bókband sem hlutlausa umgjörð, heldur sem
áhrifaríkan tjáningarmiðil.
Eitt er það til viðbótar sem ég vil reikna bókinni til tekna. Hún
hefur persónulega þýðingu fyrir hvern þann sem hefur hana undir
höndum, og er um leið útbreiddasti og eftilvill þýðingarmesti fjöl-
miðill nútímans.
Tilraunir myndlistarmanna með form og inntak bóka má að vísu
rekja aftur til 1910-1914, til ítalskra fútúrista og rússneskra sam-
tímamanna þeirra; strangt til tekið til 19. aldar fagurkera eins og
Williams Morris eða Stephanes Mallarmé. En tímabil eiginlegra
bókverka, - en svo nefni ég fyrirbærið - hefst ekki fyrir alvöru fyrr
en með bókaflóði sjötta áratugarins.
Til marks um útbreiðslu bókverka á síðustu árum má geta þess,
að árið 1981 voru um þrjú þúsund slík verk á sölulista bókverka-
miðstöðvarinnar Printed Matter í New York. Sýningar á bókverk-
um hafa einnig verið haldnar í mörgum stærstu lista- og bókasöfn-
um heims. Auk þess hefur Museum of Modern Art í New York
opnað sérstaka deild, sem helguð er bókaútgáfu myndlistarmanna.
Síðastliðinn aldarfjórðung hafa orðið til á Islandi um 300
tilraunaverk í bókarformi, allt frá fjölrituðum tvíblöðungum upp í
handmálaðar viðhafnarútgáfur. Upplagið getur verið allt frá einu
eintaki upp í eittþúsund eintök.
I flestum tilfellum gefa höfundar, sem yfirleitt eru myndlistar-
menn, bókverk sín sjálfir út í tíu til eitt hundrað eintökum, sem oft-
ast eru númeruð og árituð eins og grafíkverk. Svo lítið upplag lætur
ekki mikið yfir sér á almennum bókamarkaði, enda láta margir
höfunda/útgefenda sér nægja að dreifa verkum sínum í þröngum
hópi vina og kunningja, eða á myndlistarsýningum. Því hefur allur
þorri þeirra vísast farið framhjá íslenskum bókmenntamönnum.
Þessi bókverkaútgáfa myndlistarmanna er mikilvægur þáttur í
sögu íslenskrar myndlistar hin síðari ár. En þýðing hennar nær
einnig út fyrir landsteinana. Færa má rök fyrir því að á Islandi hafi
verið lagður einn af hornsteinum hinnar alþjóðlegu bókverka-
hefðar sem hér hefur verið stuttlega lýst.1
I ritgerðum sem skrifaðar hafa verið um tilkomu og þróun bók-