Skírnir - 01.04.1988, Síða 67
SKÍRNIR
BÓK UM BÓK FRÁ BÓK . . .
61
bókverks enn frekari tækifæri til túlkunar, gerir Rot bókverk með
síðum sem hægt er að víxla, jafnvel lausblöðunga, sem stokka má
eins og spil, auka við eða draga frá.
Eg tel raunar einnig að Rot hafi litið á bókverk sín sem viðbót við
þá hreyfiskúlptúra sem hann gerði í talsverðum mæli á sjötta ára-
tugnum.6
Sammerkt með næstum öllum hreyfilistaverkum hans frá þessu
tímabili, er einmitt að þau eru handknúin — hvort sem um er að
ræða að snúa skildi á vegg, breyta út af gefnu formmynstri, rúlla
stálkúlum milli hindrana, - eða fletta bókum.7
Astæða þess, að Rot kaus fremur að „handvæða“ verk sín en vél-
væða, eins og starfsbræður hans úti í löndum gerðu ( Soto, le Parc,
Bury), - var áreiðanlega ekki sú að honum væri vélvæðing um
megn, — öllum vinum hans á Islandi ber saman um verklagni hans
og áhuga á vélum, - heldur þykir mér trúlegt að Rot hafi af ásettu
ráði sniðgengið vél- eða vindvæðingu (utan einu sinni, sjá verk
hans, Vindhörpuna, 1962 ), því með henni yrði skoðandinn snuð-
aður um valkosti sína, og „skapandi“ þátttaka hans í listaverkinu
væri úr sögunni.
Afstaða Rots til myndlistar á umræddu tímabili var út af fyrir sig
óvenjuleg, burtséð frá því hvernig hann virkjaði bókina til að koma
sjónarmiðum sínum á framfæri. Hugmyndin um myndverkið sem
kerfi, sem áhorfandinn getur haft áhrif á, komst varla í tísku fyrr en
með ZERO hreyfingunni, upp úr 1958.
Ekki er mér kunnugt um bein fordæmi fyrir notkun Rots á bók-
inni sem hreyfilistaverki. Þó er rétt að nefna til sögunnar ítalska
listamanninn Bruno Munari.
Arið 1945 hafði Munari þegar lagt drög að hreyfiverki, sem hann
nefndi „Ora X“, og á árunum 1949-55 gerði hann nokkur bókverk
sem hann nefndi „Libri illeggibili“ eða „ólæsilegar bækur“. í þeim
voru síður, sem voru bæði gataðar og óreglulegar í laginu, jafnvel
heftar eða bundnar saman þannig að þær voru lesanda/skoðanda
bókstaflega sem „lokuð bók“.
Þótt ekki sé löng leið milli Mílanó, þar sem Munari bjó, og Sviss,
segist Rot ekki hafa séð neitt eftir hann fyrr en í Kaupmannahöfn
árið 1956. Þar hafði einn samstarfsmanna hans, Rolf Middelbo,
komist yfir eina af hinum „ólæsilegu bókum“ Munaris.