Skírnir - 01.04.1988, Síða 93
SKÍRNIR
BÓKUMBÓKFRÁBÓK . . .
79
næstum guðlegu sköpunargáfu listamannsins með því að upphefja
tilviljunina sem skapandi afl og gegn hugmyndinni um hið ódauð-
lega listaverk tefldi hann hlutgervingum sínum (ready mades).
Þetta voru hversdagslegir hlutir sem Duchamp rakst á, klósettskál,
flöskuþurrkari, skófla og fleira, og útnefndi til listaverka, rétt eins
og kóngar slógu menn til riddara.
„Blaðabækur" Rots má vissulega líta á sem nokkurs konar
hreyfiskúlptúra, en fyrst og fremst eru þeir hlutgervingar í bókar-
formi, úrgangspappír sem listamaðurinn dubbar upp og gerir að
„menningarefni" með því að binda hann inn.
Hugmyndum Duchamps kynntist Rot fyrst í byrjun sjöunda
áratugarins fyrir tilverknað breska popplistarmannsins Richards
Hamilton, sem var einn helsti aðdáandi Duchamps í Bretlandi og
hafði þýtt og útsett leiðarvísi og drög Duchamps að „Stóra Gler-
inu“ svonefnda. Sú útsetning kom út árið 1960.
Þeir Hamilton og Rot byrjuðu líklega á því sama ári að skrifast
á, og sendi Hamilton þeim síðarnefnda bók Duchamps. „duchamp
hristi rækilega upp í mér, sló mig alveg út af laginu í langan tíma“,
segir Rot í bréfi til Hamiltons, sennilega frá 1961.3
En með þessum fyrstu „blaðabókum“ sínum hafði Rot ekki sagt
sitt síðasta orð um form, eðli og tilgang bókarinnar. Að vissu marki
má líta á þær sem tilraunir með bókina sem massa. Hvenær hættir
blaðabunki að vera bók?
Það hefði verið ólíkt Rot að íhuga ekki hið gagnstæða. Hve lítil
getur bók verið? Sú spurning gat af sér minnsta bókverk Rots til
þessa, daily mirror book (1961), sem var aðeins 2x2 cm. og innihélt
150 „síður“, sem teknar voru af handahófi úr breska síðdegisblað-
inu Daily Mirror.
Rot hefur alla tíð verið í nöp við dagblöð, telur þau ófær um að
fjalla um veruleikann.4 Mér finnst ekki fráleitt að í þessu tilfelli sé
hann bókstaflega að „gera lítið úr“ síðdegisblaðamennsku. Að
hlutgera orðatiltæki af þessu tagi er einmitt mjög í anda hans. Við
þetta má bæta, að fyrir kunningja sína A. Balthazar og Pol Bury
gerði hann aðra pínubók úr dagblaðapappír um svipað leyti og
kallaði daglegt bull.
Birgðir Rots af Daily Mirror virðast hafa enst vel. A Akureyri lét
hann sjóða blaðið, uns úr því varð hreinn pappírsmassi. Hjá kjöt-