Skírnir - 01.04.1988, Page 161
SKIRNIR
GUNNLAÐARSAGA
147
og gegnum síu prentverksins sem hlýtur að breyta henni úr því sem
hún er í það sem karlaveldið leyfir henni að vera. Röddin getur ver-
ið kvenleg en aldrei sönn konurödd.
Sé kenningin um að orðið sé í eðli sínu karllegt leidd röklega til
lykta gæti svo virst sem það sé einfaldlega óhugsandi að kvenrödd-
in geti heyrst í tungumálinu, þar sem tungumálið hljóti af sömu
ástæðum að vera karleðlis. A vissan hátt mundi þetta stemma sam-
an við þær gamalkunnu ásakanir að konur séu „móðursjúkar“,
órökvísar, ónákvæmar, firrtar skynsemi í tjáningu. Þegar þær beita
kvenröddinni fellur hún ekki að röklegri notkun tungumálsins
heldur verður hún einhvern veginn að skjóta sér inn á milli orðanna
þannig að hún virðist, einkum í ritmáli (,,ritningunni“), vera sam-
hengislaus, jafnvel vitfirrt - óð - tunglsjúk - í augum þeirra sem
hafa tamið sér sígilda mælikvarða málfræði, rökfræði og mælsku-
listar, þriggja greina sem eru órjúfanlega samtvinnaðar í mennta-
hefð Vesturlanda og eru allar þrjár „karllegar“ í eðli sínu.11
Auðvelt er að halda því fram að vilji manneskja tjá sig við aðra
manneskju sé sanngjarnt að ætlast til að hún tileinki sér tungumál
sem hún geti notað til að gera sig skiljanlega. Rödd kvenhyggju-
gagnrýninnar er skjót til svara: „Einmitt! I okkar menningarheimi
þýðir þetta að konur verða að grípa til „kvenlega" tungumálsins,
þess eina sem þeim er tiltækt í heimi sem karlmenn stjórna. Rödd
okkar heyrist því aðeins að við föllumst á að nota þann miðil sem
okkur hefur verið úthlutaður og er talinn hæfa þeirri mynd sem
ríkjandi valdsmenn, karlmennirnir, hafa gert sér af okkur. En -
setjum svo að við viðurkennum að við höfum ekki einvörðungu
áhuga á að tjá okkur við valdahóp karla, sem krefjast þess að við
tölum þeirra mál ef þeir eiga að hlusta á okkur, heldur fyrst og
fremst við systur okkar, þennan félagslega jaðarhóp sem ætlast er
til að tali mál menningarlegrar forréttindastéttar, rétt eins og aðrir
menningarlega kúgaðir hópar. Og ef út í það er farið þá skiljum við
heldur ekki hvers vegna bræður okkar neita að leggja það á sig að
reyna að læra okkar tungumál sé þeim í mun að skilja bókmenntir
okkar, á sama hátt og við höfum reynt að læra þeirra mál til að skilja
þeirra bækur. Að læra í raun og sannleik að hlusta á og lesa „móð-
urmálið". Halldór Laxness setti fram keimlíkar röksemdir um ís-