Skírnir - 01.04.1988, Page 171
SKÍRNIR
GUNNLAÐARSAGA
157
V
Það er eftirtektarvert að í íslensku er orðið skáld hvorugkyns. Það
felur ekki í sér neina fyrirframgefna hugmynd um kynferði
skáldsins. Það er einungis venjuhugsun nútímans - sú sem var ríkj-
andi þegar miðaldahandrit elstu kvæða á íslensku voru gefin út -
sem hefur ráðið því að til dæmis er gert ráð fyrir því að karlmaður
hafi ort Völuspá, þó að allar vísbendingar hnígi í þá átt að það sé
kvenrödd (eða raddir) sem við heyrum að baki þessa kvæðis. Það
er athyglisvert að sýnirnar í þessu kvæði eiga sér áberandi samsvar-
anir í sumum þáttum þeirrar bókmenntagreinar sem kvenhyggju-
gagnrýnendur hafa - af ástæðum öðrum en fagurfræðilegum — talið
sérlega aðgengilega fyrir kvenrithöfunda, þeirrar sem telja má
Gunnlaðarsögu til, en það er fantasían eða furðusagan.
Skáldskapur eftir konur hefur oft á tíðum fallið inn í það mót
sem við köllum fantasíu eða furðusögu, hvort sem þar er um að
ræða útópískar sögur eða vísindaskáldsögur. Nöfn ýmissa kvenna
sem hafa verið brautryðjendur á þessu sviði koma í hugann, svo
sem Mary Shelley (Frankenstein), Marion Zimmer Bradley (The
Mists of Avalon) og Doris Lessing (Canopus in Argos). Því hefur
reyndar verið haldið fram að margt af þeim skáldskap sem skrifað-
ur er sérstaklega til að selja konum, svokallaðar ástarsögur, séu á
sína vísu einnig furðusögur eða hugarburður. I bókum eins og The
Mists of Avalon birtist veruleikasýn sem er frábrugðin þeirri venju-
legu og gefur sig ekki út fyrir að lýsa heiminum eins og hann er en
getur birt heimssýn sem felur í sér sjónarhorn konunnar. „Kvenna-
skáldsögur" bjóða hins vegar upp á kvenlegan hugarburð. Þar er
reynt að túlka heiminn sem karlmaðurinn stjórnar, heim sem er
konum ógeðfelldur eða jafnvel andstyggilegur, þannig að hann
verði þeim bærilegur. Bent hefur verið á20 að hugarburðarástarsög-
urnar geri þetta í meginatriðum með því að láta að því liggja að
undir tilfinningaköldu, harðneskjulegu og drottnandi yfirborði
karlmannsins í sögunni blundi í rauninni viðkvæmur, lítill drengur
sem bíði þess eins að einhver elski hann og breyti honum í tilfinn-
inganæman og umhyggjusaman verndara sem þráir ekkert annað
en notalegt fjölskyldulíf á smekklega búnu heimili þar sem ilmur-
inn af sælkeraréttunum liggur í loftinu. I þessum sögum fáum við
hins vegar aldrei að fylgjast með þessari breytingu úr froski í prins