Skírnir - 01.04.1988, Page 182
168
HJÖRDÍS BJÖRK HÁKONARDÓTTIR SKÍRNIR
og skýr röksemdafærsla er nauðsynleg til að tryggja að eðlilegt
samræmi sé með dómsniðurstöðum. Hugsum okkur að dómari sé
að velta fyrir sér tilteknu máli, og hafi fyrir sér dóm í öðru máli sem
er að einhverju leyti svipaðs eðlis. Sjaldan eru tvö dómsmál þó al-
veg sambærileg að öllu leyti. Sé nú rökstuðningur dómsins fátæk-
legur, kann dómarinn að vera í fullkominni óvissu um hvort þau
atriði, sem virðast eins í eldra málinu og því sem á borði hans
liggur, skiptu sköpum í fyrri dómnum eða ekki. I stuttu máli, jafn-
vel þótt dómari sé allur af vilja gerður að meðhöndla sams konar
mál á sama hátt er ekki víst að hann geti það ef rökstuðningi fyrri
dóma er ábótavant. I öðru lagi eru rök nauðsynleg til þess að aðrir
geti áttað sig á því hvernig dómarinn komst að niðurstöðu sinni.
Þau eru sönnun þess að ekki sé um neina geðþóttaákvörðun að
ræða og það þarf fólk að vita til þess að geta borið fullt traust til
dómstólanna. Að vísu er hægt að hugsa sér dómskerfi þar sem eng-
ar forsendur dóma væru birtar, heldur niðurstaðan ein. A hinn
bóginn væru „dómar“ án niðurstöðu engir dómar.91 þessum skiln-
ingi er niðurstaðan eðlislægari þáttur dómsins en forsendurnar.
Hins vegar samrýmdust forsendulausir dómar ekki hugmyndum
okkar um réttarríki, þar sem þá væri ekki sýnt fram á að niðurstað-
an sé rökleg afleiðing gildandi réttar. Illa rökstuddir dómar hafa
áhrif í sömu átt.
En nú er málið að vísu ekki svo einfalt að sá sem les vel rökstudd-
an dóm geti ævinlega skilið allar forsendur dómsins til hlítar. Það
er vegna þess að aldrei kemur allt sem máli skiptir fram í lýsingu
málsins. Ymsar staðreyndir hvers máls, sönnunargögn og mat
dómara á þeim koma einatt ekki fram í hinum ritaða dómi. Ef til vill
er það í raun svo að dómarinn hefur tvær útgáfur af hverjum dómi,
eina í huga sér og aðra skráða. I hinni huglægu hefur hvert smá-
atriði verið gaumgæft og ýmsar ákvarðanir teknar og raðað niður
áður en tekist er á við aðalatriðin, en í hinni skrifuðu er reynt að
lýsa aðalatriðum málsins og rökstyðja niðurstöðu. En hvað sem
þessu líður ætti hver dómur að vera skrifaður þannig að niðurstað-
an sé sem næst því að vera röklega óhjákvæmileg að þeim forsend-
um dómsins gefnum sem skýrt eru teknar fram, og eins ætti rökum
aðila sem áhrif hefðu á niðurstöðu, væru þau tekin til greina en ekki
er fallist á, að vera hafnað með ljósum rökum.