Skírnir - 01.04.1988, Page 183
SKÍRNIR
SKÍRNISMÁL
169
Að mínum dómi mættu ríkja hér strangari venjur um þessi atriði.
Til dæmis er ekki óalgengt í dómum afar óljóst orðalag svo sem
„eins og á stendur“, „þykir því eftir atvikum rétt“, og fleira þvíum-
líkt. Varkárnin situr hér í öndvegi. Vera má að stundum sé orðalag
af þessu tagi saklaust. Á það einkum við þegar það er alveg innan-
tómt og því hefði að ósekju mátt sleppa. I öðrum tilvikum verkar
það fyrst og fremst eins og verið sé að forðast að taka af skarið og
gera forsendur dómsins fullkomlega ljósar. Orðalag af þessu tagi
gefur í skyn að stæði einhvern veginn öðruvísi á kynni niðurstaðan
að vera allt önnur, en alveg er ósagt látið nákvæmlega hvaða að-
stæður í málinu gera að verkum að niðurstaðan er sú sem raunin er.
Aðili sem tapar málinu og lögmaður hans, sitja eftir með sárt ennið,
litlu nær en áður um það hvers vegna rétturinn sem þeir ef til vill
töldu vera sín megin er það ekki.
Þessum málum tengist spurningin um það hverjum hinn ritaði
dómur eigi að þjóna, fyrir hvern hann á að vera saminn. Sumir vilja
að hann sé saminn fyrir hinn almenna borgara. Aðrir að hann sé
skrifaður fyrir málsaðilana sjálfa, sem eru frábrugðnir hinum al-
menna borgara í því að þeir þekkja vel alla málavöxtu. Enn aðrir að
þeir séu skrifaðir fyrir lögfræðinga, það sé síðan hlutverk lög-
manna aðila að skýra dóminn útfyrir skjólstæðingum sínum.10Það
hlýtur að felast í þessu sjónarmiði að öðrum borgurum sé engin
nauðsyn að skilja dóminn.
Séu undanskilin einstök snúin lögfræðileg atriði eiga lög-
fræðingar það almennt sammerkt með öðrum mönnum að til þess
að skilja niðurstöðu, þurfa þeir að sjá forsendur hennar. Sjái þeir
þær ekki hlýtur túlkun þeirra á því hvernig niðurstaðan er fundin
að byggjast á tilgátum eða eigin athugunum, sem ekki þurfa að vera
þær sömu og dómsins. En þeir sem aðhyllast þá kenningu að dóma
eigi að skrifa fyrir lögfræðinga telja að þar sem lögfræðingarnir
þekki lögin og skilji hinn lögfræðilega hugsanagang og starfsað-
ferðir dómstóla, þá komi þetta ekki að sök og sé jafnvel kjánalegt
að fara að útlista það náið sem liggi í augum uppi og hver maður
viti. Því er sennilegt að þeir sem aðhyllist hinn stutta, varfærnislega
og óljósa rökstuðning séu oftast þeir sömu og telja að dómar skuli
einkum skrifaðir með löglærða lesendur í huga. En óvíst er að lög-
fræðingur geti rétt í eyðurnar og því engin trygging fyrir því að