Skírnir - 01.04.1988, Page 190
176
VILHJÁLMUR ÁRNASON
SKIRNIR
ingshyggju nútímans. Það er allavega lítill skyldleiki milli íslenska
þjóðveldisins, sem beinlínis kallaði á pólitíska einstaklingshyggju
vegna skorts á stjórnarstofnunum, og íslenska lýðveldisins sem býr
við allar þær opinberu valdastofnanir sem eiga að vernda einstakl-
inginn og tryggja að stjórnað sé í anda laganna. Það er því tíma-
skekkja að tala um forníslenska og nýíslenska einstaklingshyggju í
sömu andrá. Pólitísk einstaklingshyggja til forna var leið manna til
þess að rækja skyldur sínar við samfélagið og leiða deilumál til
lykta í þjóðfélagi án ríkisvalds, en einstaklingshyggja í stjórnmál-
um nútímans er leið manna til þess að vanrækja stjórnmálaskyldur
sínar í réttarríki og fara að eigin geðþótta. Það er ofur skiljanlegt
þegar goði safnar liði til að knýja fram lausn mála á alþingi til forna,
en það er illskiljanlegt þegar þingmaður á Islandi nútímans safnar
liði sér til stuðnings eftir að hafa brotið landslög. Til þess að ræða
nýíslenska einstaklingshyggju í stjórnmálum þyrfti meðal annars
að fara ítarlega í saumana á íslenskum stjórnlögum og stjórnsiðum,
en ekki að sakast við fornmenn eða fornritin.
4. Eg held að sú aðferð siðfræði og félagsfræða að kanna samspil
siðferðis og samfélagsgerðar í Islendingasögunum sé líklegri til
þess að stuðla að lifandi umræðu um menningararfinn heldur en
því að búa enn betur um hann undir gleri. Ahugi almennings á Is-
lendingasögum hefur alltaf verið af siðferðilegum toga og óneitan-
lega hefur upphafning einstaklingsafreka og önnur hetjudýrkun
löngum loðað við vinsældir sagnanna. En það er verðugt verkefni
fyrir fræðimenn að virkja þennan siðfræðiáhuga á fornsögunum og
beina honum inn á brautir sem leiða til betri skilnings á fornís-
lensku samfélagi. Markmiðið með slíkum söguskilningi á að vera
að opna augu manna betur fyrir samtíma sínum, kostum hans og
göllum. Og þar sem það er orðin lenska að vitna í Sigurð Nordal í
þessu Skírnismáli er tilhlýðilegt að minnast orða hans í þessu sam-
hengi:
Sagan getur orðið þjóðum sama og sálkönnun einstaklingum, losað þær við
ýmiss konar innanmein með því að rekja fyrir rætur þeirra og upptök,
gamla hleypidóma, - vofur, sem þær óttast, tálsýnir, sem þær elta. Einum
getur stafað hætta af ofdýrkun fornaldarinnar, öðrum af hræðslu við þá
ofdýrkun [...]. Þá má hvorki dekra við misbrestina, eins og mannlegt er