Skírnir - 01.04.1988, Page 192
RITDÓMAR
HRAFNS SAGA SVEINBJARNARSONAR
Edited by Guðrún P. Helgadóttir
Clarendon Press, Oxford 1987.
Hrafns saga Sveinbjarnarsonar er varðveitt í handritum í tveimur
gerðum, sem nefndar eru A-gerð og B-gerð, og er B-gerð mun styttri; hluti
sögunnar var tekinn upp í Sturlunga sögu, en stytt og breytt af ritstjóra
Sturlungusafnsins og með sama hætti var efni úr Hrafns sögu notað í tveim-
ur gerðum Guðmundar sögu biskups. Elstu textar Hrafns sögu verða ekki
raktir lengra aftur en til um það bil miðrar 14. aldar, en sagan er líklega rituð
að upphafi á tímabilinu um 1230-1260.
Guðrún P. Helgadóttir hefur færst í fang það óárennilega verk að birta
Hrafns sögu eins nærri frumgerð og hægt er að komast með textafræðileg-
um aðferðum. Að baki útgáfu Guðrúnar liggur gaumgæfileg rannsókn
hennar sjálfrar á skyldleika allra handrita sem geyma Hrafns sögu og efni
úr henni. Jafnframt nýtur Guðrún stuðnings af stafréttri útgáfu Agnete
Loth á A-gerð Hrafns sögu (Membrana Regia Deperdita (Editiones
Arnamagnæanæ Ser. A, vol. 5), Kh. 1960), samskonar útgáfu Annette
Hasle á B-gerð sögunnar (Hrafns saga Sveinbjarnarsonar (Editiones
Arnamagnæanæ Ser. B, vol. 25) , Kh. 1967), ennfremur af útgáfu Stefáns
Karlssonar á Guðmundar sögum (Guðmundar sögur biskups I (Editiones
Arnamagnæanæ Ser. B, vol. 6), Kh. 1983) og útgáfum Sturlunga sögu (Kh.
1906-11 ogRvk. 1946).
Guðrún sýnir með ættarskrá handrita (s. cix) eftir hvaða leiðum hún
hugsar sér varðveittar gerðir sögunnar til okkar komnar og með lista
(s. cxiv) skýrir hún hvernig hún stóð að verki til þess að gera söguna þannig
úr garði að textinn yrði sem mest frálaus sérkennum einstakra ritstjóra og
skrifara sem með söguna hafa farið.
Með samanburði handrita af A-gerð verður henni ljóst að í AM 155 fol.
er minna um sérkenni en í öðrum handritum af þessari gerð. Leggur Guð-
rún því þetta handrit til grundvallar útgáfu sinni en bregður út af því þar
sem nægilegir vitnisburðir úr öðrum handritum A-gerðar, úr handritum af
B-gerð Hrafns sögu, texti Sturlungu eða Guðmundar sagna eru á einhvern
veg samsaga vitni um líklegasta upprunalega texta sögunnar. Leshættir sem
hún velur í aðaltexta úr öðrum handritum en AM 155 fol. eru stjörnu-
merktir og lesbrigði sem máli skipta fyrir frumgerð sögunnar eru í sérstök-
um kafla aftan við aðaltexta.
Leikmanni sem og fræðimanni er því gert til hæfis hvorumtveggja, sögu-