Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 57
Gunnar Kristjánsson
Smurðir og vígðir
Lútherskur embættisskilningur á hálum ís
I. Inngangur
Embættið í evangelísk-Iútherskri kirkju er á dagskrá. Hvernig ber að skilja
það og skilgreina, hvernig verður því best lýst? Til þess eru tvær leiðir, önnur
er að leita til rótanna og skoða hvernig siðbótarmenn skildu embættið. Hin
leiðin er að horfa til þess á líðandi stund og vega það og meta í ljósi sögu
og samtíðar. Hér er ekki aðeins eitt þeirra meginviðfangsefna, sem settu
svip á siðbótartímann, heldur og brýnt og tímabært umfjöllunarefni þjóð-
kirkjunnar á okkar dögum.
Það er ekki síðar en í ritinu Til hins kristna aðals (1520), einu magnaðasta
riti Lúthers, sem hann er búinn að koma hugsun sinni um efnið í fastmótað
form. Melanchton var heldur seinni á sér enda vart búinn að slíta barns-
skónum þegar hann gerðist prófessor í grísku við háskólann í Wittenberg.
Agsborgarjátningin áratug síðar (1530) er bautasteinn hans í umræðunni
um embættið. í embætti lútherska prestsins birtist siðbótarkristnin að
mörgu leyti holdi klædd.
Gagnrýnin sem Lúther og samstarfsmenn hans beindu að embættis-
skilningi rómversk-kaþólsku kirkjunnar er skýr og einföld: vígslan er ekki
sakramenti, í reynd átti það við um allar vígslur, á kirkjum og kirkjugörðum,
á myndum og styttum, á brunnum og fjöllum. Eftir sem áður þurftu
siðbótarmenn samt að vera á verði á þessum vígstöðvum: litríkur skrúði,
seiðandi gregorstónar, reykelsi og framandi umhverfi, þar sem vitundin um
handanlægan veruleika var kölluð fram, var ávallt freisting hinum almenna
borgara.
Baráttan á þessum vígstöðvum var ærin og ekki bætti úr skák þegar ný
víglína varð til á óvæntum stað, á hinum vængnum. Þar voru sveimhugarnir
sem tóku Lúther einum of bókstaflega í háskalegum misskilningi sínum og
hugsuðu sem svo: við lesum Biblíuna og túlkum hana eins og við teljum
55