Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 43
nú á dögum, „Ó, blíði Jesús, blessa þú“, að vísu í mjög endurbættri mynd
séra Valdimars Briem.43 Að líkindum hefur Ólafur Guðmundsson þýtt
flesta Davíðssálmana í Sálmabókinni og virðist hann hafa merkt sér einn
sálminn eða einn sálmanna sem er ortur út frá 51. Sálmi, „Ó, Guð, minn
herra, aumka mig“, en út frá fyrsta staf í fyrstu línu hvers erindis má lesa
nafnið Ólafur. Frumsálmurinn er eftir þýska skáldið og tónskáldið Mattháus
Greiter (1494-1550).44
Tveir sálmar eru merktir séra Einari Sigurðssyni í Eydölum (1538-1626).
Annar sálmurinn er „Miskunna þú mér, mildur Guð“ og ortur út frá 51.
Sálmi, og hinn er „Hver sem að reisir hæga byggð“, sem er ortur út frá 91.
Sálmi. Undir heiti beggja sálmanna stendur skammstöfunin S.E.S. sem
merkir séra Einar Sigurðsson. Sálmur 51 er eftir B. Waldis en Sálmur 91
eftir Johann Mathesius (1508-15 65).45 Þessir sálmar eru báðir prentaðir
í Ljóðmœlum Einars í Eydölum sem Arnastofnun gaf út árið 2007 og er
frumhöfunda getið í skýringum.46 Þá telur Páll Eggert að annarri þýðingu
á sálmi Waldiss út frá 127. Sálmi svipi til kveðskapar séra Einars.47
Tveir sálmar eru merktir Guðbrandi biskupi sjálfum. Báðir eru ortir
út frá 103. Sálmi. Annar er sálmurinn „Guði lof skalt, önd mín, inna“ og
er fjögur erindi. Þar er nafn Guðbrands bundið í erindunum og stafirnir
í nafninu auðkenndir með stórum stöfum. Hinn er sálmurinn „Guð þinn
og herra einn yfir allt“ og er sex erindi. Inn í sálminn er felld setningin
„Guðbrandur Þorláksson biskup yfir allt Hóladómkirkjuumdæmi“ og eru
orðin auðkennd með stórum stöfum. Báðir sálmarnir eru þýðingar úr þýsku.
Fyrri sálmurinn er eftir Johann Gramann (1487-1541) en sá síðari er eftir
ókunnan þýskan höfund.48 Það er hugsanlegt að Guðbrandur hafi sjálfur
þýtt þessa sálma en ekki er útilokað að þýðandi þeirra hafi viljað tileinka
Guðbrandi þessa lofgjörðarsálma. Bæði sr. Einar Sigurðsson og sr. Magnús
43 Núgildandi Sálmabók, nr. 252.
44 Páll Eggert Ólason, 1924, s. 135; um Greiter, sjá http://www.bach-cantatas.com/Lib/Greiter-
Matthias.htm (sótt 17. okt. 2012).
45 Páll Eggert Ólason, 1924, s. 134 og s. 136.
46 Einar Sigurðsson í Eydölum, 2007, LjóSmali, Jón Samsonarson og Kristján Eiríksson bjuggu til
prentunar, s. 75-76 (Slm 51) og s. 77-78 (Slm 91). Sjá og skýringar s. 215-216 og http://bragi.
arnastofnun.is/leit. „Hver sem að reisir hæga byggð“ hélst í sálmabókarútgáfunum 1801 og 1871,
lítillega breyttur af Geir biskupi Vídalín. Bára Grímsdóttir hefur gert lag við sálminn, sjá plötu
Mótettukórs Hallgrímskirkju, Ljósiðpitt lýsi mér (2008).
47 Páll Eggert Ólason, 1924, s. 140.
48 Páll Eggert Ólason, 1924, s. 137. Báðir sálmarnir eru í Sálmabók 1772, Höfuðgreinabók.
41