Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Side 124
Geir tekur undir með Weber að smám saman hafi losnað um þessa
trúarlegu skilgreiningu vinnunnar í kapítalísku samfélagi Vesturlanda. Fyrir
vikið lifi nú hugmyndin um sjálfstætt vægi vinnunnar sjálfstæðu lífi í hugum
Vesturlandabúa án allra tengsla við útvalningu og handanveru. Þá stöðu og
það tóm sem trúin skilur eftir hafi neysluhyggjan fyllt. Það sem nú sé orðið
einkennandi fyrir vestræna menningu séu náin tengsl vinnu og neyslu í stað
þeirra nánu tengsla vinnu og trúarlegs siðferðis sem Kalvín og arftakar hans
héldu á lofti.
í framsetningu Sigurðar og Geirs er ljóst að Weber dregur fram vægi hins
trúarlega þáttar fyrir þróun kapítalismans, hvernig kapítalisminn tekur á
sig æ skýrari mynd efnahagskerfis og loks hvernig smám saman losnar um
trúarlegan grundvöll hans og hann verður að hreinu „immanent kerfi“ eða
kerfi alfarið innan hérverunnar.
I þessu samhengi vaknar eftirfarandi spurning: Hvaða guðfræðilega kerfi
notar Weber í greiningum sínum og hvað býr að baki umfjöllun hans um
guðfræði Lúthers?
Max Weber svarar henni árið 1910 í andsvari við gagnrýni á greinar
sínar um siðferði mótmælenda og auðhyggjuna. Þar fjallar Weber um
þá tilhneigingu gagnrýnenda hans að leggja að jöfnu greiningu hans og
guðfræðingsins Ernsts Troeltsch (1865-1923) vinar síns á sama efni. Þetta
gangi það langt að fjallað sé um „Weber-Troeltsch-tilgátuna“ og það sem
annar segi sé eignað hinum og öfugt.16 Weber andmælir þessu að hluta
og bendir á að félagslegi þátturinn sé aðallega í forgrunni hjá sér en hjá
Troeltsch sé það guðfræðilegi þátturinn.
Það kemur lítt á óvart að í umræðunni hafi kenningar þeirra félaga verið
settar saman. Þeir voru jafnt fræðilega sem og persónulega nánir. Fjölskyldur
þeirra bjuggu t.d. um árabil í sama húsi í Heidelberg (1910-1914) og
mikill samgangur var á milli þeirra.17 Þegar Max Weber gat ekki eða treysti
sér ekki til að fjalla um skrif sín hjá Der Verband Historiker Deutschlands
árið 1906, bað hann vin sinn Ernst Troeltsch um að taka að sér fyrir-
lesturinn.18 Troeltsch varð við þeirri bón og hélt þar sinn fræga fyrirlestur
„Die Bedeutung des Protestantismus fúr die moderne Welt“ þar sem hann
16 Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 343.
17 Hans-Georg Drescher, Ernst Troeltsch - Leben und Werk, Göttingen, 1991, 209-215.
18 Ernst Troeltsch, „Die Bedeutung des Protestantismus fur die moderne Welt“ (1906-1911), í
Ernst Troeltsch Kritische Gesamtausgabe, Band 8, ritstj. Trutz Rendtorff og Stefan Pautler, Berlín,
2001, 201 [200-321].
122