Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Side 123
Geir ýjar hér að þriðju notkun lögmálsins sem skiptir miklu máli innan
kalvínískrar hefðar Þar er kennt að til sé sérstök notkun lögmálsins fyrir
kristna einstaklinga sem ekki eigi við um aðra, enda hafi Guð forútvalið
hvern og einn ýmist til eilífs lífs eða eilífrar glötunar. Innan lúthersdómsins
er þessari kalvínsku túlkun hins vegar hafnað enda litið svo á að lögmálið
sé aðeins með tvenns konar hlutverk. Fyrsta notkun lögmálsins snýr að ytri
veruleika, samfélagslegum skyldum og almennri breytni mannsins meðan
önnur notkun lögmálsins snýr að innri veruleika og tengist samvisku
mannsins þar sem hann verður meðvitaður um syndina. Lögmálið í þessari
annarri notkun lýkur upp þverstæðum tilverunnar og þörf mannsins fyrir
náð Guðs. Það hrekur manninn þannig í náðarfaðm Guðs föður. Þar verður
enginn hólpinn af eigin verkum heldur aðeins af náð. Maðurinn er þannig
leystur undan oki sjálfsréttlætingar og þeirrar hjálpræðisvæðingar veru-
leikans og eigin verka sem hún leiðir til. Maðurinn getur nú virt heiminn
sem heim, manninn sem mann og Guð sem Guð. Lögmálið er nú í fyrstu
notkun þess, bundið við ytri veruleika verkanna en ekki innri veruleika
mannsins.
Geir þekkir líklega ekki til þessarar guðfræðilegu greiningar því að hann
tekur undir þann misskilning að í kenningu Lúthers sé um að ræða algjöra
aðgreiningu á milli veraldlegs og andlegs veruleika. Jafnframt álítur Geir
að það eigi ekki við um Kalvín þar sem Biblían og lagaákvæði hennar séu
í guðfræði hans nýtt fyrir veraldarvafstur hins trúaða í samræmi við þriðju
notkun lögmálsins.13
Að mati Geirs magnaði kenning Kalvíns um náðarútvalningu kristinna
manna aftur á móti „margfalt upp þá tilhneigingu einstaklingsins að líta
á verkin sem merki eða vísbendingu um trúarafl sitt“.14 Fyrir vikið veitti
sleitulaus vinna manninum sálarró innan kalvínismans. Þannig tókst Kalvín
með kenningu sinni að skapa „„innanheims meinlætahyggju“, sem var eins
konar klausturlíf innan veraldlegrar tilveru [...] allt það sem ekki stefnir
á nytsamlegt og arðsamlegt takmark, er gjörsamlega forkastanlegt“.15 f
kalvínismanum fá verkin vægi persónulegrar staðfestingar á útvalningu
einstaklingsins. Guðfræðilega orðað má bæta við að ekki er gerður greinar-
munur á réttlætingu af trú og helgun.
13 Geir Sigurðsson, „Vinnudýrkun, meinlæti og vítahringur neyslunnar“, nmgr. 18, 349.
14 Geir Sigurðsson, „Vinnudýrkun, meinlæti og vítahringur neyslunnar", 350.
15 Geir Sigurðsson, „Vinnudýrkun, meinlæti og vítahringur neyslunnar", 351.
121