Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Side 151
fyrir framtíðinni, en einnig hryggð sem jafna má við algjört svartnætti.
Þannig má segja, þrátt fyrir að margar aldir skilji að, að vissan samhljóm
sé að finna í túlkun heimspekinganna þriggja á skömm og tjáningu fólks
í okkar samtíma sem upplifað hefur ofbeldi á barnsaldri. Niðurstaða mín
í þessum hluta greinarinnar styrkir því tilgátu Williams, Nussbaum og
Rotenstreichs um að nútímafólk hafi margt að sækja til þekkingar fyrri alda
hugsuða hvað skilning á skammartilfinningu áhrærir.
Skömm í dag
Skömm og þögn eru nátengd fyrirbæri. Það telja þær Ellen Bass og Laura
Davis og byggja á reynslu sinni af samtölum við þolendur kynferðislegs
ofbeldis.18 Bass og Davis líta fyrst og fremst á skammartilfinninguna sem
vanmetakennd sem haldi fólki föstu í vanlíðan en gera enga tilraun til
sálfræðilegrar eða heimspekilegrar umræðu um hana. Áhugi þeirra beinist
að því að hjálpa þeim sem þjást andlega vegna kynferðislegs ofbeldis og í því
sambandi telja þær lykilatriði að komast yfir skömmina. Hvernig er farið að
því? Svar þeirra er þetta: Með því að rjúfa þögnina, segja frá því sem gerðist,
segja sannleikann, segja frá leyndarmálinu sem viðkomandi einstaklingar
hafa byrgt inni. Með því að segja frá, víki vanmetatilfinningin fyrir öðrum
og betri tilfinningum. Þolendur upplifi í kjölfarið mikla frelsistilfinningu
sem líkja megi við að hlekkir hafi verið leystir, að þolendur hafi sloppið
úr skuggahelli og komist út í ljósið. Það sem kvelji þá sé ekki hatur í garð
gerenda heldur leyndarmálið sjálft sem þolendur óttist sífellt að upp um
komist. Fyrsta skref í bata felist í að uppljóstra því sjálfur, stíga fram og
segja frá.19
Þetta var einmitt það sem nokkrir einstaklingar hér á landi gerðu nýlega
í viðtölum við dagblaðið DV. Þeir rufu áratuga langa þögn og tjáðu sig
opinberlega um reynslu sína á barnsaldri af kynferðislegu ofbeldi. Allir tala
þeir í viðtölunum um skömm sem orsök þess að þeir byrgðu reynslu sína
inni og sögðu engum frá. Lítum á nokkur brot úr frásögnum þeirra:
„Þetta var óþægilegt en lagðist ekki á sálina á mér. Eg vissi alltaf að þetta
hafði ekkert með mig að gera. [...] Mér finnst mjög mikilvægt að menn stígi
fram því skömmin er ekki okkar, þolendanna, engan veginn. [...] Ég held að
18 Ellen Bass og Laura Davis, The Courage to Heal. A Guide for Women Survivors of Child Sexual
Abuse, London: Vermillon, 1988. Bókin byggir á samtölum höfunda við þolendur og er hugsuð
sem sjálfshjálparbók.
19 Ellen Bass og Laura Davis, The Courage to Heal, bls. 108-109.
149