Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 139
hins trúaða og að trúfræðilegar íhuganir eru settar til hliðar. Kenningarlega
hvíldi sem sé meginþunginn á eftirfylgd manna við Krist sem kemur fram
í siðferðilegri breytni. Kjarni kenninga þeirra er í grunninn einfaldur,
siðrænn og mannbætandi kristindómur.70 Með áherslunni á fullorðinsskírn
er dregið fram meðvitað val og ákvörðun einstaklingsins og frelsi viljans
varðandi siðferðilega breytni. Hún er undirstaða þeirrar einstaklingshyggju
sem mótar síðan áðurnefndar hreyfingar. Þessi þáttur tengdist síðan kenn-
ingu Kalvíns um tvöfalda forútvalningu Guðs. Samkvæmt henni ákvað Guð
fyrir tíma sköpunarinnar hverjir myndu tilheyra eilífu ríki hans og hverjir
ekki.71 Samkvæmt Weber er kenningin um útvalninguna í guðfræði Lúthers
hins vegar bundin trúarreynslu einstaklingsins. Hún er svo að segja íhugun
einstaklingsins um mikilvægi þeirrar endurlausnar og náðar sem hann er nú
þegar aðnjótandi í Kristi og hefur fulla hlutdeild í fyrir trú. Hún er sem sé
afleiðing þeirra náðar sem einstaklingurinn á og hefur. Að mati Lúthers á
tvöföld útvalning ekki við í þeirri íhugun. Annað er uppi á teningnum hjá
Kalvín. Kenningin sprettur þar ekki af trúarreynslu, heldur er mun fremur
afsprengi röklegrar greiningar.72 Samkvæmt henni er maðurinn til vegna
dýrðar Guðs. Af því leiðir Kalvín að inntak lífs mannsins felist í að gera
Guð dýrlegan með lífi sínu og verkum. í þessu samhengi greinir Kalvín
á milli þeirra, sem eru útvaldir til eilífrar sælu með Guði og þeirra, sem
eru útskúfaðir. Rökstuðningur Kalvíns er á þá leið að þar sem maðurinn
meðtaki algjörlega óverðskuldað náð og fyrirgefningu Guðs, beri að álykta
sem svo að maðurinn geti á engan hátt haft áhrif á náðarval Guðs, hvað þá
frelsi Guðs til að veita honum náð sína. Rökrétt afleiðing þessa hljóti því að
vera að Guð hafi fyrir upphaf tímans og sköpunar útvalið suma til að fylla
í raðir þeirra sem eru náðarinnar aðnjótandi og aðgreindir frá útskúfuðum.
Önnur skilgreining myndi ryðja verkaréttlætingu leið.
Lútherskir guðfræðingar gagnrýna þessa sýn og segja að Kalvín losi
kenninguna úr samhengi reynslu mannsins af náð Guðs. I framsetningu
Kalvíns er kenningin ekki afleiðing trúar, heldur gerð að röklegri forsendu
hennar. Afleiðing þessa var að kenningin ól af sér óöryggi og efa. Hún er
70 Max Weber, Dieprotestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 140-141 [85-86].
71 Utvalningarkenningin er flóknara fyrirbæri en að mögulegt sé að afmarka hana við þessa
skilgreiningu. Sígilt verk um þessa kenningu Kalvíns er Heinz Otten, Pradestination in Calvins
theologischer Lehre, Darmstadt, 1968. Theodor Mahlmann, „Pradestination“, TRE 27, 122-124
[118-157].
72 Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 144 [92].
137