Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Side 183
Á Norðurlöndum er Finnland eina ríkið sem ekki hefur breytt lögum um
hjónaband í þessa veru. Noregur, sem var fyrst Norðurlanda til að leyfa
hjónaband samkynhneigðra, býr hins vegar enn við það að norska kirkjan
hefur ekki samþykkt það fyrir sitt leyti. Staða sem sýnir að átök milli
ríkis og kirkju eiga sér enn stað. Það er kannski dæmigert fyrir þá stöðu
að það er einmitt norski guðfræðingurinn, Roger Jensen, sem ekki fjallar
um hjónaband samkynhneigðra sem átakamál, kannski einmitt vegna þess
hve málið er enn eldfimt innan norsku kirkjunnar! Þess í stað beinir hann
sjónum að grundvallaratriði í því efni, sambandi ríkis og kirkju, þar sem
hann bendir á að nýleg lög um samband ríkis og kirkju í Noregi sýni skýrt
að ríkið vilji áfram eiga náið samband við kirkjuna.
Annar hluti bókarinnar fjallar um áhrif vakningarhreyfmga á lúthersku
kirkjurnar á Norðurlöndum. Hér má finna þrjá kafla en enginn þeirra er
skrifaður frá íslensku sjónarhorni sem er auðvitað bagalegt. Marie Thomsen
skrifar frá dönsku sjónarhorni og ræðir hvernig dönsk, frjálslynd löggjöf frá
miðri 19. öld hefur gert það kleift að leyfa margs konar trúarlegum áhrifum
að nema land og þróast innan evangelísk-lúthersku dönsku kirkjunnar, án
þess að einingu hennar sé ógnað. Hún tekur dæmi af Alfa-námskeiðunum
sem hafa hlotið mikla útbreiðslu og vinsældir. Þennan möguleika, að taka
inn nýtt efni undir áhrifum vakningarhreyfinga, telur hún hafa haft jákvæð
áhrif á trúrækni. Þessi áhrif hafi þó alls ekki nauðsynlega skilað sér inn í
hefðbundið safnaðarstarf. Ulrika Svalfors er á svipuðum nótum fyrir hönd
sænsku, lúthersku kirkjunnar og fjallar bæði um Alfa-námskeiðin og Oasis-
hreyfinguna, kosti þeirra og galla fyrir sænsku kirkjuna. Niðurstaða hennar
er að þótt ýmislegt jákvætt megi finna í þessu efni, sé þar ekki síður á ferð
íhaldsöm guðfræði sem sé ekki til þess fallin að endurnýja og þróa guðfræði
og safnaðarstarf lúthersku kirkjunnar í Svíþjóð í jákvæða átt.
I þriðja hluta bókarinnar er kastljósinu beint að stöðu og hlutverki
kvenna í lútherskum kirkjum á Norðurlöndunum. Hér eru framlög frá
öllum fjórum löndunum og skrifar Arnfríður Guðmundsdóttir kafla frá
íslenskum sjónarhóli. Tvö meginþemu einkenna skrif flestallra í þessum
hluta, afstaðan til prestsvígslu kvenna í lútherskum, norrænum kirkjum
og notkun máls beggja kynja (e. inclusive language) í helgihaldinu. Fram
kemur að fjöldi vígðra kvenna eykst stöðugt í lúthersku, norrænu kirkjunum
og jákvæða þróun virðist mega sjá hvað varðar biskupa einnig. Þá ályktun
má draga af þessum köflum að lúthersk guðfræði sé konum í kirkjunni
vinveitt. Arnfríður Guðmundsdóttir tengir hina jákvæðu stöðu kvenna
181