Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Side 142
mati Webers er afleiðing þessa sú að klausturlifnaður sem farvegur helgunar
verður alfarið bundinn við hið veraldlega.
Weber greinir nú milli kirkju og sértrúarhópa (þ. Sekt). Kirkjan er
stofnun um samfélag trúaðra, sem einstaklingurinn fæðist inn í. Á lífsleið
hans er kirkjan einstaklingum farvegur endurlausnar og helgunar. Innan
hennar nýtur maðurinn aðstoðar kennimanna og presta. Þeir túlka trúar-
arfinn og laga að lífshlaupi meðlima sinna í farvegi boðunar, sakramenta og
kirkjulegra athafna. Kirkjan miðlar þannig endurlausn inn í hverja samtíð.
Kirkjan sem stofnun er opin en til þess að sem flestir geti rúmast innan
hennar, heldur hún öllum þröskuldum lágum.
Sértrúarhópur er aftur á móti frjáls félagasamtök trúaðra einstaklinga.
Þeir hafa meðvitað tekið ákvörðun um að tilheyra viðkomandi trúfélagi.
Söfnuðinum er haldið saman með skýrum siðferðilegum reglum og
tilhneiging er mikil í þá átt að greina sig frá umhverfmu. Það er gert til
að skapa vitund um andstæðurnar „við - þið“, þ.e.a.s safnaðarmeðlima og
þeirra sem eru fyrir utan. Einstaklingurinn er ábyrgur fyrir trú sinni og
ræktun hennar. í henni höndlar maðurinn opinberun Guðs, sem er ekki að
öllu leyti fram komin.85
Weber tekur fyrir skrif púrítanans Richards Baxter (1615-1691), sem
reit áhrifamikil rit um hvernig kristnir ættu að haga lífi sínu. Að mati
Webers er í þeim að finna nákvæma útfærslu á þessa heims meinlætahyggju
kalvínismans. Baxter berst gegn öllum óþarfa nautnum og vill takmarka
neyslu við það allra nauðsynlegasta. Öllum lúxus er hafnað. Á sama tíma
losar Baxter um þau höft sem hefðbundið siðferði setti gagnvart hagkvæmni,
gróða, ávöxtun fjár og auðsöfnun.86 Slíkt er ekki lengur talið óæskilegt,
heldur álitið samræmast vilja Guðs og vera tákn blessunar.87
Þessi púrítanska sýn er ljósmóðir nútíma kapítalisma, sem losaði um
tök hefðbundins skilnings á gildi vinnu að mati Webers.88 Auðhyggjan fær
nú trúarlega réttlætingu og sjálfstætt gildi. „Þegar meinlætastefnan yfirgaf
munkaklefann og tengdist efnahagslífmu á sama tíma og veraldlegt siðferði
varð mótandi, aðlagaði hún margslungin heim nútímans að forsendum
tækni- og vélvædds efnahagskerfis. Það mótar enn í dag ekki einungis
85 Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 315, 317.
86 Karl Holl telur m.a. að framsetning Webers sé hér of einhliða. Karl Holl, „Die Frage des
Zinsnehmens und des Wuchers in der reformierten Kirche“, 385-386, 398-399, [385-403].
87 Max Weber, Dieprotestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 194 [192].
88 Max Weber, Dieprotestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 195 [195].
140