Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 75
tekið þekkt dæmi úr íslenskri áhrifasögu sálmsins. Þá verða nýlegar túlkanir
sálmsins úr femínískum ranni teknar til skoðunar og einkum hugað að
því hvort sálmurinn byggi á lífsreynslu konu. Ekki er ætlunin að ritskýra
sálminn í smáatriðum heldur draga fram þau atriði sem skipta meginmáli
við þá túlkun hans sem hér verður kynnt. Öðru firemur verður þó litið til
áhrifasögu sálmsins.
Harmsálmur
I sálminum er að finna öll helstu einkenni harmsálmanna. Sálmur 13
hefur löngum verið nýttur sem dæmi um það sem einkennir harmsálma
einstaklings. Það gerði t.d. Hermann Gunkel (1862-1932) upphafsmaður
hinnar formsögulegu greiningar og flokkunar sálmanna.
Sálmur 13 skiptist þannig: (1) Harmur með endurtekinni spurningu:
Hversu lengi? (2) Neyðinni lýst (3) Hróp á hjálp, innleidd með boðháttum
(4) Fullvissa um bænheyrslu (5) Niðurlag í hymnastíl (stundum).
Ekki er annað að sjá en öll séu þessi atriði til staðar í Slm 55 þó að þau
komi kannski ekki fýrir í nákvæmlega sömu röð og í Slm 13 enda Slm 55
mun lengri.
Hér er ákall til Guðs, v. 2-3a, lýsing á neyðinni, v 3b-9 og 10b-12
þar sem lýst er illu ástandi í borginni og í v. 13-15 og v. 21-22 er helsta
óvininum lýst og þar kemur fram að hann hefur áður verið „ástúðarvinur“
sálmaskáldsins.
Bæn um að Guð grípi inn í gang mála og refsi fjandmönnunum er
að finna í v. lOa og 16 og loks kemur í v. 17-20 og 23-24 fullvissa um
bænheyrslu. Sálmurinn er óvenjulega persónulegur og ber með sér sár
vonbrigði yfir vini sem svikið hefur gefin loforð.
Til eru þó þeir fræðimenn sem telja að nákvæmari greining en þetta eigi
rétt á sér, telja að það sé konungurinn sem tali í sálminum og því beri að
skipa honum í flokk konunglegra harmsálma, eins og t.d. Slm 101.7
Stiklað á stóru
Áður en lengra er haldið verður veitt innsýn í sálminn með því að stikla
á stóru um einstök efnisatriði hans, án þess þó að þar geti orðið um
ritskýringu í smáatriðum að ræða. Fremur verður bent á nokkur meginstef.
7 Meðal kunnra fræðimanna sem aðhyllast þessa skoðun eru þeir Mowinckel og Eaton og þeir
Keselman og Barré í sameiginlegri grein. Sjá Keselman, J. S. og Barré, L., „Psalm 55: Problems
and Proposals“, CBQ LX, 1998, s. 440-462.
73