Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Side 137
Ernst Troeltsch.62 Ritskýring Lúthers leiddi, samkvæmt Weber, til þess að
hið veraldlega svið og hið andlega svið voru ekki lengur túlkuð að hætti
miðaldakirkjunnar sem tvær andstæður í ytri veruleika mannsins. Þ.e.a.s.
að um væri að ræða ríki Guðs, er kirkjan sem stofnun væri fulltrúi fyrir,
sem stæði andspænis ríki heimsins, er ríkisvaldið væri fulltrúi fyrir. Lúther
hafnaði þeim skilningi og batt hið veraldlega og andlega ríki saman við tvö
svið mannlegrar tilveru. Þau snúa að mati Lúthers að ytri og innri veruleika
mannsins. Veraldlega sviðinu, ytri veruleika mannsins, tilheyra verkin eða
vinnan (þ. Beruf). Andlega sviðinu tilheyrir aftur á móti innri veruleiki
mannsins, en að honum snýr trúin. í samhengi þessa tengir Lúther helgun
og köllun við vinnu en það leiðir til þess að öll vinna og allt veraldarvafstur
er metið sem köllun. Vinnan verður köllun. Vettvangur náungakærleikans
er veraldlega sviðið og vinnan er farvegur góðverka. Helgun er ekki lengur
bundin við afmarkaðan veruleika klausturlífs, heldur alfarið hið veraldlega
svið. I guðfræði siðbótarmanna verður sú helgun, sem bundin var m.a. við
klausturlíf, að táknmynd sjálfhverfu og ástleysis, en hið veraldlega líf aftur
á móti verður að vettvangi náungakærleika og sannrar guðsþjónustu.63
Lúther losar, að mati Webers, auk þessa vinnuna undan klafa gróða- og
eignahyggju. Hún fær vægi í sjálfri sér. Vinnan er manninum eðlislæg og er
raungerð í lífi hans.64 Það má orða það svo að eftirfylgdin við Krist eigi sér
stað í erli dagsins og verði sýnileg í vinnu daglegs lífs. Það kemur þar með
ekki á óvart að Lúther gagnrýni spákaupmennsku, okur og gróðahyggju.
Vinnusiðferði Lúthers spyrnir gegn því neikvæða sjónarmiði til vinnu að
hún sé ill nauðsyn og tæki gróðahyggju og veitir henni þess í stað sjálfstætt
vægi þar sem hún réttlætir sjálfa sig.65
Lúther tókst þó ekki að brjótast alfarið undan hefð miðaldakirkjunnar
því að hann heldur í þann skilning að hver maður verði að aðlaga sig þeim
stað og þeirri stöðu sem hann tilheyrir. I vinnusiðferði Lúthers er það skref
62 í neðanmálsgreinum nr. 54-82 (Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des
Kapitalismus, 125-131) rekur Weber þessa þróun með ítarlegri hliðsjón af guðfræðilegum
rannsóknum m.a. þeirra Karls Chrisdans Eger (1864-1945), Ernsts Troeltsch og Reinholds
Seeberg (1859-1935) á guðfræði og starfi siðbótarmannsins.
63 Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 99 [74].
64 Þessi áhersla Webers þarfnast leiðréttingar því að Lúther segir vissulega: „Manninum er eins
eðlislægt að vinna og fuglinum að fljúga.“ WA 17 I, 23. Þessi setning segir mikið um gildi
vinnunnar en líka um mörk hennar fyrir manninn. Vinnan er manninum vissulega eðlislæg, en
hún er sem slík hvorki grundvöllur lífs hans né markmið. Fuglinn sest líka.
65 Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 99 [74].