Tímarit Máls og menningar - 01.02.2009, Page 129
TMM 2009 · 1 129
D ó m a r u m b æ k u r
Soffía Auður Birgisdóttir
Harmljóð um missi og glötuð tækifæri
Álfrún Gunnlaugsdóttir. Rán. Mál og menning 2008
nýjasta skáldsaga Álfrúnar Gunnlaugsdóttur segir frá ferðalagi hinnar
íslensku Ránar frá heimili sínu í Sviss til Íslands með viðkomu í Barselóna, þar
sem hún lagði stund á nám á sínum yngri árum. Reyndar er þetta ekki alls-
kostar rétt því þótt ferðinni sé heitið til Íslands lýkur frásögninni áður en þeim
áfangastað er náð. Ferðalagið á milli landa verður þó aðeins rammi fyrir lengra
og mikilvægara ferðalag sem söguhetjan fer í huganum og spannar allt líf
hennar. Það ferðalag byggist á upprifjunum, tilfinningum og tilraunum Ránar
til að henda reiður á fortíð sinni og raða saman sundurlausum minningarbrot-
um. Það gengur þó ekki þrautalaust enda er Rán í allnokkurri afneitun og
lætur lengst af sem fortíðin sé óaðgengileg og tilgangslaust sé að reyna að skoða
hana: „Þýddi ekkert að horfa til þess sem verið hafði og varð tæpast vakið
aftur“ (50); „Einkennilegt hvernig allt máist út. Og þó ekki“ (58). „Ég er ekki í
skapi til að fara í fortíðarleik“ (40) segir hún á öðrum stað en þó verður ekki
undan þessum leik vikist og öðrum þræði virðist Rán þarfnast einhvers konar
uppgjörs: „Það var komið að henni að horfast í augu við breytingar sem óhjá-
kvæmilega höfðu átt sér stað á heilli mannsævi“ (34).
Þeir sem þekkja til bóka Álfrúnar sjá hér kunnugleg mynstur. Uppgjör við
fortíðina er sá rauði þráður sem auðvelt er að greina í öllum hennar verkum.
Skáldsögurnar Þel (1984), Hringsól (1987) og Yfir Ebrofljótið (2001) segja allar
frá manneskjum sem eru í svipaðri stöðu og Rán, líta yfir líf sitt og heyja bar-
áttu við minnið, tregar en þó tilneyddar til uppgjörs. Og líkt og í fyrri verkum
Álfrúnar er sögusviðið hér að mestu leyti Ísland og Spánn þótt leikurinn berist
víðar um lönd Vestur-Evrópu. Annað einkenni á verkum Álfrúnar Gunnlaugs-
dóttur er frásagnarháttur þar sem línulegri framvindu er hafnað en frásögnin
sett fram í formi brotakenndra atburða og svipmynda. Þá er stokkið fram og
aftur í tíma og söguatvikin borin á borð fyrir lesandann á svipaðan hátt og þau
koma aðalpersónunni í hug; sprottin af tilfinningum augnabliksins og hug-
renningatengslum. Þótt slíkur „brotakenndur“ frásagnarháttur sé oft talinn
eitt megineinkenni módernískra texta má kannski allt eins halda því fram að
hann sé „raunsæislegri“ en línulegur frásagnarháttur þar sem allt gerist í
„réttu“ orsakasamhengi og tímaröð því hann standi reynslu okkar nær. Í Rán
er frásögnin reyndar alls ekki eins brotakennd og í ýmsum fyrri sögum Álf-
rúnar, en hins vegar bætir hún einum snúningi á frásagnarháttinn með því að
TMM_1_2009.indd 129 2/11/09 11:27:32 AM