Goðasteinn - 01.09.1997, Qupperneq 128
Goðasteinn 1997
blasti við úr bæjardyrum biskups-
setursins í Skálholti, andlegu höfuðbóli
og huggunarlind stórs hluta þjóðarinn-
ar. Steinkast úr fjallinu rotaði eitt sinn
mann í dyrunum. Allt bar þetta að
einum brunni, að móta hugmyndina um
Heklu sem ímynd eyðingar, ógnar og
tortímingar. Hekla varð frægasta og ill-
ræmdasta eldfjall landsins í augum
Islendinga.
En frægð hennar barst brátt víðar.
Eldspúandi fjöll eru óþekkt fyrirbæri í
löndum Norðvestur-Evrópu kringum
Norðursjó, þeim sem Islendingar höfðu
mest samskipti við. Raunar þarf að fara
alla leið til Sikileyjar og Suður-Italíu til
að sjá önnur eins býsn, þar sem eru
Etna og Vesúvíus, en þau eldtjöll njóta
að minnsta kosti sömu frægðar og
Hekla.
Talið hefur verið, að Heklu sé þegar
getið í erlendum heimildum á 12. öld,
en nýlegar eftirgrennslanir hafa leitt í
ljós, að svo muni ekki vera. Hins vegar
er lýsing á Heklugosi mjög líklega
fólgin í frásögn Herberts kapelláns í
Fögrudölum (Clairvaux) á Frakklandi
frá því um 1 180. Skömmu síðar er
Hekla nefnd í Noregssögu Þjóðreks
munks í Þrándheimi (Historia Nor-
vegiae), þar sem hún er á latínu kölluð
„mons Casulae", eða „fjall heklunnar“,
en svo nefndust hettuflíkur, sem al-
gengar voru á fyrri tímum. Styður það
þá tilgátu um uppruna heitisins, að það
muni vera dregið af snæhettu fjallsins,
sem enn í dag er algeng sjón. Hekla
heitir raunar fjall á eyjunni Ivist
(South-Uist) á Suðureyjum, en frá
þeim eyjum komu mjög margir land-
námsmenn til Islands.
Snemma mun Hekla hefa verið
bendluð við hlið helvítis. Annar
inngangur var talinn vera í Etnu á
Sikiley og virðist ekki hafa verið á
hreinu, hvort væru aðaldyr og hvort
væru bakdyr. Þó virðist húsagerð í
helvíti ekki hafa verið eins og á gömlu
íslensku skálunum, þar sem voru
karldyr og kvendyr, að minnsta kosti er
þess hvergi getið. Hafi svo verið, þá
hafa karldyr líklega verið í Heklu, því
að þar streymdu púkar út og inn um
fjallið með sálir fordæmdra í taumi,
þegar styrjaldir og stórorustur voru í
útlandinu, en einkum mun hafa verið
slátrað karlpeningi í stórorustum.
Fengu landsmenn því að sögn fréttaboð
um slíkt stórum skjótar en skipakomur
leyfðu. Svo segja útlenskir ritahöfundar
frá 16. og 17. öld, þar á meðal hinn al-
ræmdi Dithmar Blefken („Dittmar
lyga-pyttur“ í íslensku kvæði). Eitthvað
mun þessi trú hafa verið daufari hjá
Islendingum sjálfum, enda ódrjúgur
fréttamiðill, sem aðeins birtist einu
sinni eða tvisvar á öld í eldgosum.
Þess var raunar varla von, að sann-
verðugri frásögur um Heklu gengu í
útlöndum, því að snautt var um rann-
sóknir á henni. Einhver fyrsta lýsing á
henni er f Islandslýsingu Odds biskups
Einarssonar (um 1590), en sonur hans,
Gísli Skálholtsbiskup, skrifaði lýsingu
á Heklugosinu 1636, sem hann var
sjónarvottur að. Eftir það eru til inn-
lendar frásagnir eftir sjón og raun af
öllum meiri háttar Heklugosum.
-126-