Andvari - 01.01.1996, Page 12
10
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
í náinni framtíð. Þróun heimsmála, vísinda og tækni er okkur á margan hátt
hagfelld. Við blasir ný veröld sem einkennist fremur af opnum samskiptum
en af lokuðum valdakerfum. Hæfni og hugvit skipta meira máli en stærð og
styrkleiki. Hinn smái getur haft til að bera snerpu og knáleik sem oft dugar
ekki síður en afl risans við að hagnýta tækni nútímans.
Við íslendingar eigum því einstæða möguleika. Við erum allstaðar boðin
velkomin til samstarfs við nýfrjálsar þjóðir og þróunarríki. Enginn þarf að
óttast okkur vegna stærðar eða hugsanlegs yfirgangs. Einangrun vegna fjar-
lægðar og samgönguhindrana er að mestu úr sögunni og tækifæri bíða í öll-
um heimshlutum.“
Forsetinn vék einnig að fornum dæmum sögunnar sem senn verður
minnst, kristnitöku og landafundum íslendinga fyrir nærfellt þúsund árum,
svo og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem eingöngu var háð með orðsins
brandi. Þessir atburðir „leggja okkur á herðar þá skyldu að miðla öðrum af
reynslu okkar og friðarhefð,“ sagði hann. „Saga íslendinga er sönnun þess
að hægt er að ná sáttum um grundvöll samfélagsins og hljóta sjálfstæði og
full lýðréttindi án þeirra mannfórna sem mótað hafa örlög margra þjóða.“
Þessir kaflar úr embættistökuræðu forseta íslands, Ólafs Ragnars Gríms-
sonar, 1. ágúst 1996, eru teknir upp hér af því að þeir og ræðan í heild túlka
einkar vel ýmsar þær hugsanir sem sækja á okkur við þröskuld nýrrar ald-
ar. Forsetinn á að hafa skilning á hugsunarhætti landsmanna, næmleik til að
skynja hvernig vindar blása í umheiminum og framtíðarsýn. Meðan oddvit-
ar þjóðarinnar leitast við að hafa það fyrir augum sem lýst er í ræðu forset-
ans er ástæða til bjartsýni þótt víða séu blikur á lofti. Andvari, rit Hins
íslenska þjóðvinafélags, sem eins og félagið sjálft rekur upphaf sitt til þjóð-
frelsisbaráttu Jóns Sigurðssonar, árnar nýjum forseta íslands heilla í
störfum á komandi tíð.
Gunnar Stefánsson