Eimreiðin - 01.07.1939, Blaðsíða 92
324
RYKIÐ AF VEGINUM
EIMREIÐIN
— Sko! Þarna hafið þér hruflað yður á löngutöng, segir
ungi maðurinn og hjálpar henni á fætur.
— Nei, hvíslar hún. Það er bara svolítil skráma á vísifingri.
— Mér sýndist það vera á löngutöng, segir hann.
— Nei, það er á vísifingri, segir hún.
— Það er ekkert spaug að hrasa stundum ...
—- Ég hrasaði bara um lurkskömmina, muldraði hún og
dustaði kuskið af ljósgráu sumarkápunni sinni.
— Bíðum við. (Hann tekur upp nýjan vasaklút og rífur
hann í mjóar ræmur.) Ég skal binda um þetta.
—• Nei, nei! Þess þarf ekki ...
— Jú, það er betra að binda um það, segir hann og tekur
hönd hennar til sín. — Svona! Er ég ekki góður læknir?
Þau halda áfram og skiftast á stuttum ástríðulausum orð-
um, sem virðast ekki hafa neitt ákveðið innihald. Hann á
undan, hún á eftir.
Loks beygir gatan til vinstri. Hér er skógurinn hæstur, og
blátt fljótið kemur í ljós milli slútandi greinanna. Hann stað-
næmist. Hún staðnæmist líka.
— Jæja. Það er bezt fyrir mig að snúa við og fara heim .. •
— Eigum við ekki að labba niður að ánni, segir hann var-
færnislega.
— Það er kominn háttatími, segir hún. Ég ætla að fara heim.
— Vinnið þér kannske á hótelinu?
— Já.
— Við skulum labba niður að ánni, segir hann í djarfari
tón.
— Nei. Ég ætla að fara heim ...
— Eruð þér eldcert rómantískar?
— Ha? Rómantísk? endurtekur hún og getur ekki stilt sig
um að hlægja. — Æ, ég veit það ekki, hætir hún við.
— Við skulum labba niður að ánni, segir hann ákveðinn.
Svo verðum við samferða heim að hótelinu.
— Þau settust hlið við hlið á mosavaxinn dranga. Fljótið
streymdi framhjá þeim, og hringiðan lék sér við bakkana. Það
var líkast því sem mýrin fyrir handan svæfi, en lengst í fjarska
reis fjallið hátt og stórskorið, með eldrautt aftanskin á tind-
um og mjúka bláa skugga í giljum og skörðum.