Tímarit Máls og menningar - 01.09.1995, Síða 80
Leðurblakan í Súpermann búningnum er undarlegur kynblendingur,
leðurblökur eru hluti af táknforða hins illa og myrka, þær eru blóðsugur og
seinna hittum við þær reyndar fyrir í Vondakastala. Ofurhetjurnar Súper-
mann og Batman sem blandast saman í blöðkunni eru hins vegar fulltrúar
góðra afla. Þeir eru vanir að bjarga börnum og konum hvenær sem hætta
steðjar að. En í ævintýraskóginum mega ofurhetjur sín lítils. Súpermann er
ekki merkilegri en það að í ævintýraskóginum er hann bara leðurblaka,
hvorki með vilja né getu til ofurmannlegra góðverka, til þess þarf dverg og
klæki eins og við munum komast að.
Putti ferðast hratt yfir þessar síður, hann er lítill í samanburði við skóginn
umhverfis og það er lítill texti og lítið um smáatriði á myndunum frá því
Putti fer að sofa og þar til að í skóginum er orðið „óttalega dimmt“. Þá hægir
aftur á frásögninni, og þegar kemur að undarlegu augunum sem fylgjast með
Putta fáum við nærmynd af honum sem nær yfir heila síðu, þar sem allur
bakgrunnurinn er í svörtum tónum.
Á næstu opnu er Putta svo farið að dreyma, einungis neðsti fjórðungur
myndanna er svartur, og þar sjáum við Putta tvisvar, við upphaf og lok
draumsins, fýrst sofandi, svo skelfingu lostinn þegar hann vaknar. Draumur
Putta tekur yfir meirihluta þessarar opnu, og þar eru flestir merkustu íbúar
Ævintýraskógarins samankomnir. Putti bjargar prinsessu, ömmu, Rauð-
hettu og kiðlingi frá úlfi, stjúpu, norn og dreka. Að launum hlýtur hann
þakkir frá kóngi, prinsessu, Mjallhvíti og dvergum, einfætta tindátanum
hans H.C. Andersen , Jóa í baunagrasinu og gylltum hrúti. Einn af dvergun-
um tengir saman draum og vöku, og reynir að vara Putta við Nátttröllinu.
Yfir þessu öllu svífur svo skuggi nornar á priki. Þessi opna segir í raun
fjölmörg ævintýranna í skóginum, kannski má segja að hún spegli bæði
ævintýrið og textatengslin, því þarna er Putti kominn inn í þau ævintýri sem
ég kalla tengdatexta Skilaboðaskjóðunnar. Og með því að stilla þeim öllum
saman er hnykkt á þeim skilningi sem birtist í fyrstu setningu bókarinnar:
„ ... í Ævintýraskóginum þar sem öll ævintýrin gerast...“
Hér sannast líka orð Möddumömmu, ævintýri eru hættuleg. Það er bæði
hættulegt að fara út í skóginn að leita þeirra, og ekki síður að gefa sig á þeirra
vald í draumi. Ævintýrin sem koma Putta í klær nátttröllsins eru raunveru-
leg, en þau eru um leið ævintýri sem við heyrum eða lesum um í bókum.
Þótt munurinn þarna á milli virðist skýr í huga Möddumömmu gildir ekki
það sama um Putta, og lesandinn getur svo sannarlega ekki dregið nein
mörk. Putti fær sína refsingu þegar hann hefur gefið sig ævintýrinu á vald,
og refsingin er í formi alvöru ævintýris, Nátttröllið, ógnvaldur skógarins
kemur og tekur hann:
78
TMM 1995:3