Skírnir - 01.01.1950, Page 18
14
Jakob Benediktsson
Skírnir
ur voru bæði margar og um margvísleg efni, og bókasafn hans
varð því ótvírætt tákn þess hve óvenjulega víða eigandinn
hafði leitað fanga í heimi bókmenntanna. Mér er mjög til efs
að margir fslendingar fyrr og síðar hafi átt eins fjölbreytt
safn erlendra bóka og Sigfús Blöndal, né heldur verið öllu
víðlesnari. Ég vil ekki halda því fram að hann hafi lesið allar
bækur sem hann átti, en hitt veit ég að hann hafði lesið
margar sem hann átti ekki; og víst er um það að oft hafði
hann gaman af því að taka fram bók úr hillum sínum og
spyrja gesti hvort þeir hefðu lesið hana. Kom þá ósjaldan
fyrir að jafnvel bókfróðir menn ráku upp stór augu við slíkri
spumingu, því að oft vom þessar bækur býsna fjarri alfara-
leiðum. En þetta var ekkert grobb hjá Sigfúsi, heldur hrekk-
laus vottur um þann alhliða húmanistiska áhuga sem honum
var áskapaður. En vinum sínum sem þrengri höfðu sjóndeild-
arhring gat hann þess vegna látlaust komið á óvart með nýj-
um hliðum á þekkingu sinni og hugðarefnum.
Af því sem sagt hefur verið hér á undan má vera Ijóst
að Sigfús Blöndal var maður vinsæll og vinmargur, enda var
hann hið mesta ljúfmenni í allri umgengni, glaðvær og skraf-
hreifinn jafnt við yngri menn sem eldri og algerlega laus við
alla fordild og stórmennsku. Hann hélt manna bezt tryggð
við gamla vini, en engu að síður undi hann sér jafnan hið
bezta í hópi ungra manna og gat tekið þátt í gleðskap þeirra
fram á efstu ár, og meðal gesta hans og góðkunningja voru
ávallt einhverjir úr flokki yngstu Hafnarstúdenta. Hann hafði
mikið yndi af sönghst, lék sjálfur á gítar, kunni ógrynni af
vísum og kvæðum á ýmsum tungum, og flutningur hans á
þeim var oftast með sérkennilegum persónulegum hætti sem
mörgum gestum hans mun minnisstæður.
Ein persónulegasta ritgerð Sigfúsar og að mínu viti bezta
ritgerð sem hann hefur skrifað á íslenzku er grein sem hann
nefndi „Hvítasunnuhugvekju um söng og gítarspil“ (í Árs-
riti Fræðafélagsins, 9. árg.). Niðurstöðu greinarinnar dregur
hann saman í hina frægu lífsreglu sem Þúkýdídes lætur Peri-
kles telja einkenni Aþenubúa: „filokalein met’ evteleias“, að
elska hið fagra og láta það sjást í dagfari sínu án íburðar.