Skírnir - 01.01.1950, Side 159
Skírnir
Landnám milli Þjórsár og Hvítár
149
Mörk milli Gaulverjabæjarhrepps og Villingaholtshrepps eru
rétt fyrir neðan Súluholt, svo að þar eru hvor tveggja mörk-
in hin sömu. En þegar austar dregur, falla mörkin ekki sam-
an, svo sem áður er sagt (116. bls.), en fullvíst er, að Skúfs-
lækur, er markar landnám Lofts að ofan, hefur eigi ætíð
runnið á sama stað. Veit því enginn, hvar hann hefur runn-
ið á landnámsöld, og eru landamerki Lofts þar því eigi full-
viss. Brynjólfur Jónsson telur líklegast, að lækurinn hafi fall-
ið í Þjórsá skammt fyrir neðan Traustsholtshólma og sjái enn
víða fyrir þeim farvegi hans. Væri svo, hefði hann verið
þar á hreppamörkum. Þykir mér skoðun Br. J. því merkileg,
að hann er ekki með henni að reyna að styðja þá tilgátu,
að mörk hreppa og landnáma hafi upphaflega fallið saman,
heldur aðeins að lýsa staðháttum. Um þetta verður þó að
sjálfsögðu ekkert fullyrt. Þessi athugasemd á þá eins við
um Villingaholtshreppinn og landnám Þórarins Þorkelssonar.
Að öðru leyti þarf Villingaholtshreppurinn ekki skýring-
ar við. Þeir Þórarinn Þorkelsson, önundur bíldur og özurr
hvíti hafa numið harm allan, en ekkert land utan hans. Mörk
Villingaholtshrepps og Hraungerðishrepps á móti Skeiða-
hreppi eru þó ekki fullviss. Er þar flatneskja og engin kenni-
leiti og því engin mörk nefnd. Virðist líklegt, að þau hafi
verið svipuð og nú er milli hreppanna.
Um Skeið og Hreppa nægir að mestu að vísa til þess, er
áður er sagt. Einsætt virðist, að hreppa- og landnámamörk
hafi upphaflega fallið þar saman. Jarðir þær austan Hvítár,
er nú teljast til Biskupstungna, hljóta að hafa talizt upphaf-
lega til Skeiðahrepps og Hrunamannahrepps.
Geta verður þess, að Laxárdalur í Gnúpverjahreppi tald-
ist lengi til Hrunamannahrepps, þótt hann sé austan Stóru-
Laxár. Kirkjusókn átti Laxárdalur að Hruna árið 1331,1) og
er svo enn. En ekki virðist vafi, að Gnúpverjahreppur sá,
sem nefndur er í Landnámu, hefur náð út að Stóru-Laxá
þar sem annars staðar. Ekki er ólíklegt, að bærinn hafi síð-
ar flutzt milli hreppanna vegna kirkjusóknar sinnar að Hruna.
1) Dipl. Isl., II., 664. bls.