Skírnir - 01.01.1950, Blaðsíða 245
Skímir
Ritfregnir
235
eða a. m. k. óljós ummælin um, að fyrir daga Jóns Thoroddsens hefðu
fslendingar ekkert samið á lausu máli síðan á sagnritunaröld nema
„yidenskabelige og oplysende værker og enkelte mindre fortællinger".
Allbreiður frásagnarstíll er m. a. hjá sumum eldri annálariturum og
sjálfsævisagnahöfundum. „I Jón Thoroddsens romaner er det levende
folkesprogs rytme for forste gang indfanget i islandsk prosa“. Hvað er
þá t. a. m. um Grasaferð Jónasar? Sagt er, að lýsingar Jóns „af forskel-
lige pudsige sædvaner og kostymer sprudler af en humor, som er Scott
næsten helt fremmed“. Það er nýlunda, ef kímni í lýsingum er allt í
einu orðin upp numin úr sögum Scotts. Loks er ein aðalpersónan í
Heljarslóðarorustu Gröndals ekki Napóleon II., heldur Napóleon III.
Þegar jietta er aðeins tekið af tveimur opnum, má gera sér í hugar-
lund, hve langir yrðu leiðréttingalistar og athugasemdadálkar yfir stað-
reyndaskekkjur og ónákvæmni bókarinnar allrar. En þegar efniskönnun
og meðferð staðreynda er ekki með meiri kostgæfni en raun ber vitni,
má nærri geta, hve mikilli grandskoðun og gerhygli muni beitt við
lýsingar einstakra skálda og bókmenntamat.
Þó er í bókinni ýmislegt rétt og jafnvel gott, og á sumum efnum
getur höfundur tekið skemmtilega og skáldlega. Hann hefur og tekið
upp í bókina nokkur sýnishorn af íslenzkri ljóðagerð og þýtt sum brotin
sjálfur, og þar virðist hann hafa hæfileika, enda hefur hann, svo sem
kunnugt er, fengizt allmikið við skáldskap bæði á íslenzku og dönsku,
í bundnu máli og óbundnu. Og þessi bók hans hefur vafalaust aukið
athygli Dana á, að til séu frá síðustu öldum og samtíð okkar mark-
verðar íslenzkar bókmenntir, og hún er ekki til einskis skrifuð, ef hún
hefur getað rétt nokkuð hlut okkar í handritamálinu, en á því efni er
hér að mörgu leyti allvel haldið.
En lesandinn getur aldrei vitað, hverju hann má treysta eða taka
mark á og hverju ekki — hvort sem er um fróðleiksefni, lýsingar skáld-
skapareinkenna eða bókmenntasögulega túlkun — þar sem verkið er
reist af svo lítilli gaumgæfni á svo veikum undirstöðum. Þannig missir
hinn mikilúðlegi andríkisstill nokkuð af gildi sinu, þegar skyggnzt er
á bak við hann. Glysmiklar og víðþandar fjaðrir endast ekki til að
þreyta flugið hátt, ef þær hafa ekki örugga festu á vængjunum.
Steingrímur J. Þorsteinsson.
Ernst Robert Curtius: Europaische Literatur und lateinisches Mit-
telalter. A. Francke AG. Verlag, Bern. 1948. 601 bls.
Charles W. Jones: Medieval Literature in Translation. Longmans,
Green and Co., NewYork. 1950.xx, 1004 bls.
Það er undarlegt til þess að hugsa, að E. R. Curtius skyldi geta feng-
ið að skrifa bók sina óáreittur á uppgangs- og veldisárum Hitlers á
Þýzkalandi. Því í bókinni eru fólgin hin kröftugustu mótmæli hins lærða
höfundar gegn hinni einangrandi þjóðernis-stefnu, er náði hámarki sinu