Skírnir - 01.01.1950, Síða 265
Skírnir
Ritfregnir
255
þýðinguna — en maður hlýtur að spyrja hinnar hörðu spurningar: nær
hún málsnilld meistarans, og þá sérstaklega því, sem mestu skiptir fyrir
leikhæfni verksins, hinum algerlega eðlilega og þó tígulega og máttuga
hrynjanda og hreim hinna shakespearsku hendinga? Skáldið gekk þess
ekki dulið, hver var einn mesti galdur hans ódauðlegu listar:
Not marbles nor the guilded monuments
of princes shall outlive this powerful rhyme.
Það væri fróðlegt að vita, hve margar meiri háttar menningarþjóðir
teldu sig eiga viðunandi þýðingar á fremstu verkum Shakespeares. Víst
er, að alltaf er verið að þýða þau að nýju. Þannig hafa t. d. Johannes V.
Jensen í Danmörku og André Gide í Frakklandi gert nýjar þýðingar á
Hamlet á síðari árum, af því að leikhúsin voru óánægð með allar þær
eldri.
Góð Shakespeare-þýðing á íslenzku gengi kraftaverki næst. Því að ofan
á þann vanda að túlka alla hugsun verksins leggur stuðlasetning okkar
margfaldar þrautir fyrir íslenzkan þýðara, sem engir aðrir þýðendur
þurfa við að berjast. Ljóðaþýðendur geta tekið sér skáldaleyfi til að þýða
ekki nákvæmt, þegar kröfur stuðlasetningar gera þeim erfitt fyrir. Öðru
máli gegnir, þegar þýða á sjónleik í bundnu máli. Tilsvar verður að
þýða, án þess merking þess haggist, annars raskast samhengi verksins,
og á sem eðlilegast mál, svo að áheyrendur skilji án þess að þurfa að
brjóta heilann um, hvað verið er að segja.
Mér eru ekki í fersku minni Shakespeare-þýðingar Matthíasar Joch-
umssonar, og eg hef þær ekki við höndina, en um t. d. þýðingu hans
á Brandi Ibsens gegnir sama máli og um þýðingu Einars Benedikts-
sonar á Pétri Gaut — það vantar ekki kraft og tilþrif, en málfarið er
allt stirðara og þvingaðra en é frumritunum. Maður finnur fyrirhöfn-
ina, hve formið er þýðendunum erfitt. Hjá Ibsen er allt leikandi létt,
auðvelt að flytja af leiksviði, og auðvelt að skilja.
Væri kannske reynandi að þýða hinar klassísku sjónleikjabókmenntir
á óbundna íslenzku og sjá, hvort þær nyti sín ekki betur þannig á leik-
sviðum okkar? Það verður framtíðarinnar og Þjóðleikhússins að svara
þeirri spurningu.
Eg finn enga hvöt hjá mér til þess að tína til dæmi þess, sem finna
má að þýðingu Sigurðar Grímssonar; mér finnst liggja nær að þakka
honum áræði hans og margt, sem gott er í verki hans.
Ævisaga Símonar Bolivars, eftir ameriska höfundinn Hendrik van
Loon, í góðri þýðingu eftir Árna Jónsson frá Múla, er fróðleg og læsi-
leg bók, en því miður ekki meira. Hún er lipurt skrifuð, hlaðamanns-
áhugi og fræðara-gleði í frásögninni, en höfundurinn er ekki listamaður.
Ekkert lifir í þessari bók, hvorki borgir, lönd, þjóðir né sjálf söguhetjan.
Við kynnumst honum aldrei svo, að við þekkjum hann og munum.
Manni finnst, að svona bók ætti að vera minnisvarði mikilmennis,