Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 14
220
GUÐRÚN KVARAN
SKÍRNIR
Haustið 1816 hélt Rask aftur til Danmerkur, og má segja að hann
hafi eftir það verið á ferðalögum nær samfellt til ársins 1823. Hann
hélt fyrst til Svíþjóðar þar sem hann dvaldist í tvö ár, hélt fyrirlestra
m.a. um íslenzku, þýddi íslenzku málfræðina yfir á sænsku og gaf
út fornenska málfræði. Frá Stokkhólmi hélt Rask til Pétursborgar
og þaðan um Moskvu, Astrakan og Tiflis til Persíu og loks til Ind-
lands þar sem hann dvaldist í tvö ár. Hvarvetna lagði hann sig eftir
tungumálum þeim sem töluð voru og lærði m.a. finnsku, rússn-
esku, avestísku, fornpersnesku og sanskrít. Til Kaupmannahafnar
kom Rask í maí 1823, þá orðinn brjóstveikur, og náði hann sér
aldrei alveg eftir kulda og ýmsa hrakninga á ferð sinni. N.M. Pet-
ersen, sem var náinn vinur Rasks, hefur skrifað rækilega um þessa
löngu ferð (1834:33-77).
Þegar heim kom urðu það Rask sár vonbrigði að hann fékk enga
stöðu við sitt hæfi, og hann varð að eyða tímanum í stundakennslu
til þess að hafa í sig og á. Komu þessi vonbrigði og illi aðbúnaður
niður á geðheilsu hans og gerðu hann tortrygginn í garð flestra sem
hann umgekkst. Rask vann mikið og er næsta ótrúlegt hve miklu
hann kom frá sér af stærri og minni verkum á næstu árum þrátt fyr-
ir lélega heilsu. Hann gaf m.a. út spænska málfræði (1820), frísn-
eska málfræði (1825), ítalska málfræði (1827), lestrarkver handa
heldri manna börnum (1830) og stutta íslenzka málfræði (1832)
auk fjölda merkra ritgerða. Ein merkasta ritgerð hans er Om
Zendsprogets og Zendavestas Ælde og Ægthed (1826) þar sem hann
sýnir fram á háan aldur avestísku og skyldleika hennar við sanskrít
og lagði með henni undirstöðuna undir frekari rannsóknir.
Mjög dró úr vináttu Rasks í garð Islendinga síðustu æviárin, og
átti mesta sök á því ritdeila sem hann háði við Baldvin Einarsson
árið 1831. Upphaf þessarar deilu var nafnlaus ritdómur um þýð-
ingu C.C. Rafn á Jómsvíkingasögu og Knýtlingasögu yfir á
dönsku. Tónninn var mjög neikvæður í garð Rafns og margar at-
hugasemdir rangar og smásmugulegar. Rask hafði lesið þýðinguna
yfir og taldi sér skylt að svara dómnum og verja Rafn. Hann gaf því
út lítið kver, Gjenmxle mod Anmœldelsen af Professor C. C. Rafns
Oversxttelse af Jomsvikinga og Knytlinga, þar sem hann sýnir með
réttu fram á villur í ritdómnum en hnýtir um leið í aðrar útgáfur
málinu alls óskyldar, en unnar af þeim mönnum sem grunaðir voru