Skírnir - 01.09.1987, Síða 175
RITDÓMAR
Þorsteinn Vilhjálmsson
HEIMSMYND Á HVERFANDA HVELI
Sagt frá heimssýn vísindanna frá öndverðu
fram yfir daga Newtons I.
Mál og menning 1986.
ÞORSTEINN Vilhjálmsson er raunvísindamaður sjálfur, eðlisfræðingur að
mennt og háskólakennari að starfi, en um áratugar skeið hafa kennsla hans
og rannsóknir öðru fremur beinst að þekkingarfræði og vísindasögu.
Ávöxtur þeirrar iðju er svo meðal annars það rit sem hér er komið fyrra
bindið af. Kveðst Þorsteinn hafa samið drög að sumum köflunum vorið
1978 og síðan unnið að bókinni „hægt og bítandi samfara kennslu og
stjórnunarstörfum háskólakennarans“ (bls. 9), einnig í rannsóknarorlofum
sínum tvö skólamisseri.
Ekki mun athugull lesandi tortryggja það að býsna mikil vinna liggi að
baki bókar Þorsteins. En vinnunni hefur ekki verið varið til þess að fylla
ritið sem mestum fróðleik, heldur til þess að vinsa úr fróðleiknum og gera
úr honum heilsteypt verk, vandað og aðgengilegt, og ekki svo hlaðið efni
að torvelt sé aflestrar.
Viðfangsefni Þorsteins er aðallega saga heimsmyndarinnar, þ.e. hug-
mynda manna um eðli og skipan himinhnattanna og afstöðu þeirra til jarð-
arinnar. Þetta fyrra bindi rekur söguna frá örófi alda fram á 16. öld, endar
á sólmiðjukenningu Kóperníkusar. I seinna bindi verður sagt frá síðari
frumherjum nútímavísinda, ekki síst Kepler, Galileo og Newton. Kjarni
verksins verður þannig sú heimsmyndarbylting, sem oft er kennd við Kóp-
erníkus þótt ekki hafi hún fullkomnast fyrr en í starfi Newtons.
Óhjákvæmilega verður heimsmyndarsagan um leið saga stjörnu-
fræðinnar eða stjarnvísindanna. Jafnframt fléttar Þorsteinn inn í hana al-
mennri vísinda- og heimspekisögu, einkum í fyrstu köflunum, fram um
daga Platóns. I síðari helmingi bókarinnar er heimsmyndarsagan meira í
brennidepli og verður það væntanlega einnig í seinna bindinu. (Þó verður
spennandi að sjá hvernig Þorsteinn markar efni sitt þar, sérstaklega hve
mikið hann fer út í þróun stærðfræðinnar.)
Svo fer frásögnin dálítið út fyrir vísindasöguna sjálfa, einkum um sögu
og þjóðfélög fornaldar, og er mjög heppilegt að sýna söguefnið þannig í
samhengi. Hins vegar vottar fyrir því, sem raunar er skiljanlegt, að minna
sé vandað til þessa „baksviðs“ en meginefnisins, þannig að ónákvæmni hef-
ur slæðst inn um fáein atriði. Hlálegast er að segja (bls. 99) um vörn Spart-
verja til hinsta manns í Laugaskarði að „úrvalslið Spartverja o. fl. bar sigur-
orð af ofurefli Persa“. Ekki er heldur nákvæmt (bls. 186) að „norrænir vík-