Skírnir - 01.09.1987, Page 93
SKÍRNIR ARFUR HEGELS 299
„maðurinn“ ekki síður í lausu lofti en „heimsandinn“ eða hin
„alyfirtæka frummynd“, en hins vegar sýnu þrengri.
Marx vill halda sig við hina díalektísku aðferð Hegels og kennir
sig við hana, en munurinn er sá, að hann telur að díalektík Hegels
standi á haus eða sé á hvolfi og það sem þurfi að gera sé að koma
henni á fæturna eða á réttan kjöl. I stað hinnar algeru hughyggju á
því að koma eitthvað sem nefnist díalektísk efnishyggja, þar sem
vitundin eða hugveran er ekki lengur grundvöllur alls veruleika,
heldur aðeins afurð og afsprengi hins ytra hlutheims. Nú mætti
spyrja hvort við þessi umhvörf hljóti ekki aðferðin sjálf eða día-
lektíkin að taka einhverjum stakkaskiptum, líkt og við t.d. skiptum
um sundtök þegar við hættum að synda á bakinu og tökum til við
bringusund. Efnið eða „materían“ er einmitt það sem samkvæmt
hefðbundnum skilningi er líflaust og tregt og hvílir í sjálfu sér, þótt
hún í annan stað eigi að vera móttækileg fyrir form og hreyfingu
utan að frá. Hugsunin eða vitundin er aftur á móti samkvæmt eðli
sínu á stöðugri hreyfingu, er utan sjálfs sín en þó um leið horfin inn
í sjálfa sig og þá jafnframt haldandi um þessar tvær hreyfingar miðl-
andi gripi. Aðferð Hegels er hughyggjuættar að því leyti, að hún
gerir lögmál hugsunarinnar að lögmáli allrar framvindu. Sögulega
séð hefur hins vegar efnishyggjan ávallt tengzt vélhyggju eða hug-
myndinni um blinda og beina orsakakeðju sem vitundin sjálf hlýt-
ur einnig að falla undir, þar sem aftur á móti nafngiftin „díalektísk
efnishyggja" virðist fela það í sér að efninu séu léðir eiginleikar vit-
undarinnar.
Nú ber þess að gæta að hin díalektíska efnishyggja Marx er með
nokkuð öðru móti og að minnsta kosti bundin við annað svið en
hin klassíska frumspekilega efnishyggja, og hann blandar sér ekki
beinlínis inn í þau frumspekilegu átök heimspekinga fornaldar,
sem Platon nefndi „gígantomakhíu“ eða tröllaslag um veruna. Efn-
ishyggjan felst hér í því að skilja hinn mannlega veruleik, sögu og
samfélag út frá því sem Marx kallar raunverulegar aðstæður lifandi
og starfandi manna, þ. e. út frá stöðu framleiðslutengsla og afla
hverju sinni, andstætt Hegel sem í söguskoðun sinni verður eink-
um starsýnt á trúarskoðanir og lífsviðhorf hinna ólíku tímabila. Og
þar sem söguskoðun Hegels er „spekúlatív" eða speglandi og bein-