Skírnir - 01.09.1987, Page 105
SKÍRNIR TILVISTARSTEFNAN OG NORDAL
311
tilveran er skiljanleg. Sókrates, Ágústínus og Pascal eru meðal
frægra forvera þeirra Kierkegaards og Nietzsches sem gjarnan eru
taldir upphafsmenn hinnar eiginlegu tilvistarstefnu. í kjölfar þeirra
hafa fjölmargir aðrir spreytt sig á því að móta kenningar um hina
mennsku tilvist á kerfisbundinn heimspekilegan hátt. Og það eru
þessar ólíku og oft sundurleitu kenningar sem ganga undir heitinu
„existentialismi“ eða „tilvistarstefna“.5
Sigurður Nordal var ekki atvinnuheimspekingur og lagði sig
ekki eftir því að móta skipulegar kenningar um tilvistina með sam-
bærilegum hætti og t. a. m. Heidegger eða Sartre. En hann var upp-
fullur af tilvistarhugsun með svipuðum hætti og t. a. m. Max
Weber sem hafnar því að nokkur vísindi geti leyst lífsskoðun
mannsins af hólmi og telur að allt mat á því sem máli skiptir sé að
endingu bundið vali og heilindum einstaklingsins andspænis rök-
leysi tilverunnar.6 Hér skiptir afstaðan til lífsskoðunar og siðferðis
höfuðmáli. Weber var samtímamaður Sigurðar og hann hefði heils
hugar tekið undir með Sigurði þegar hann beinir spjótum sínum að
þjóðfélagi sem í nafni frelsis, skilnings og mannúðar hefur „kippt
burt allri siðferðilegri fótfestu“. Sigurður lýsir því svo: „ábyrgðin
er tekin frá einstaklingnum og henni dreift á óendanlega röð af or-
sökum og tildrögum, munur góðs og ills er þurrkaður út, guð er
sjálfur í syndinni, allt er hégómi og barnaleikur og þar af leiðandi
fyrirgefanlegt.“7 Þetta skrifar Sigurður skömmu eftir fyrri heims-
styrjöldina. Rétt eftir að síðari heimsstyrjöldin hófst kemur skýrt
fram hvílíka áherslu hann leggur á heilsteypta lífsskoðun:
Um eitt verður aldarfjórðungnum 1914-39 tæplega neitað: hann hefur gef-
ið hverjum þeim, sem vildi ekki svíkjast undan því, ærin tilefni róttækrar
endurskoðunar alls konar hleypidóma, nýrrar bersýni. Og mér er nær að
halda, að aldrei hafi verið hugsað eins ærlega í veröldinni og einmitt nú,
innan um allar firrurnar. Þessa hugsun getur enginn fjötrað, nema hún sjálf,
þótt hún verði hædd af höfuðprestum þjóðlyginnar, fyrirlitin af þjónum
tækninnar, ofsótt af hrottalegum valdboðum harðstjóranna. Ef henni verð-
ur ekki beinlínis útrýmt með báli og brandi, þá verður það hún, sem sáir
hinu góða sæði í akurinn, sem ofbeldið getur ekki nema plægt og herfað. Ur
því að það er rangsnúin lífsskoðun, sem ósköpunum veldur, getur ekkert
annað en sannari lífsskoðun komið mannkyninu á réttan kjöl. (LD, s. 193-
194)