Skírnir - 01.09.1987, Side 42
248
JÓNAS KRISTJÁNSSON
SKIRNIR
það sem hann hyggur vera staðleysur í sögunni, til að mynda frá-
sagnir af Þjóstarssonum, sem helstu röksemdir fyrir því að sagan sé
skáldskapur höfundar án stuðnings munnmæla. Hér virðist mér
Sigurður ekki taka tillit til þess að munnmælasagnir geta færst
firnalangt frá uppruna sínum, svo langt að um síðir sé torvelt að
greina þar nokkurn sannleikskjarna.
Sjálfur varð Sigurður Nordal einmitt einna fyrstur sagnaskýr-
enda til að halda því fram að höfundar Islendingasagna hafi haft
meira af ýktum sögnum en sannfróðum við að styðjast. I Hrafn-
kötlu segir hann:
Þá er það eðli alþýðlegra munnmæla, að þau draga að sér efni úr farandsög-
um og þjóðtrú, og fer því fjarri, að sögurnar sé allt af því trúrri endursögn
munnmæla sem þær eru með raunsærra brag. Hitt er sönnu nær, að höf-
undur Eyrbyggju hafi t. d. haft meiri sögusagnir af Fróðárundrum og
afturgöngu Þórólfs bægifóts en af viðskiptum þeirra Snorra og Arnkels
goða.18
Við þetta átti hann er hann sagði eitt sinn við mig í gamni: „Eg
held að draugasögur séu sannari en annað í Islendingasögum.“
7. íslendingasögur og konungasögur. Mörkin milli sagnaflokka
eru stundum óglögg eins og fyrr segir, en engir tveir flokkar eru
skyldari en Islendingasögur og konungasögur, það er að segja sög-
ur um konunga og aðra merkismenn erlenda sem uppi voru á 10. og
11. öld. Sögur þessar eru að drjúgum hluta byggðar á frásögnum ís-
lenskra heimildarmanna og kvæðum íslenskra skálda, og að vonum
skipa því Islendingar þar mikið rúm. Allar rannsóknir sýna að
þessir tveir sagnaflokkar eru algerlega samstæðir að máli og stíl.
Stundum eru í konungasögunum sjálfstæðir þættir um Islendinga,
nokkurskonar stuttar Islendingasögur.
Það mun vera samdóma álit fræðimanna að slíkar konungasög-
ur, til að mynda Olafssaga Tryggvasonar og Olafssaga helga eftir
Snorra Sturluson, séu söguleg heimildarrit síns tíma, þótt þær séu
öðruvísi gerðar en sagnfræðirit á vorum dögum. A sama hátt hljóta
hinar eldri Islendingasögur, sem fjalla um nána frændur og forfeð-
ur sagnaritaranna, að vera ritaðar sem sögulegar heimildir um at-
burði sem gerst höfðu í sjálfu ættlandinu.